Samninganefnd um aðild að ESB.

Það er mitt mat að samninganefnd sú sem hefur verið kynnt til að stýra samningaviðræðum um ESB aðild sé illa skipuð.

Mitt mat er það að í nefndina hefði átt að skipa glerharða ESB sinna. Ég hefði viljað sjá Jón Baldvin Hannibalsson og Þorvald Gylfason í nefndinni.

Það er betra að hafa glerharða menn í nefndinni sem hafa trúa á aðild í stað þess að hafa menn sem hafa efasemdir um aðildina. Með því móti tel ég að við næðum betri samningum.

Það segir sig sjálft að þegar menn fara í samninga og hafa ekki sjálfir trú á þeim þá leggja þeir sig ekki 100% fram í samningaferlinu.

Við höfum dæmi um arfavitlausan samning um hagsmuni landsins sem var samningur um IceSave í vor sem varð til vegna þess að Svavar Gestson nennti ekki að hafa þetta hangandi yfir hausnum á sér.

Menn verða að hafa vilja til samninga til að fá bestu útkomuna.


Um hvað var samið?

Það er nauðsynlegt að almenningur fái að vita um hvað var samið í tenglum við sjávarútvegsmál í því sem heitir stöðuleikasáttmáli milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisins.

Er verið að semja um það að þeir sem nú hafa aðgang að auðlindinni í hafinu fái hér eftir sem hingað til að fara með auðlindana að vild?

Það er erfitt fyrir almenning í landinu að trúa því að ASÍ leggi blessun sína yfir það að LÍÚ klíkan eigi að vera í óbreyttu umhverfi áfram þrátt fyrir að sjávarútvegskerfið með frjálsa framsalinu sem er grunnur að þeirri kreppu sem við erum nú í. Þetta hefur gerst með leigu, sölu eða veðsetningu veiðiheimilda.

Þeir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn kenna sig við jöfnuð, jafnrétti og jafnræði virðast ætla að láta sérhagsmuna samtök kúga sig til að láta almannahagsmuni í skiptum fyrir eitthvað sem kallað er stöðuleikasáttmáli.

Stöðuleikasáttmáli má ekki ganga út á það eitt að auka byrgðar á almenningi á sama tíma að þeir sem hafa haft frían aðgang að auðlindum hafsins og lagt þær að veði fyrir þyrlum, hlutabréfum og öðrum leikföngum sem hafa ekkert með sjávarútveg að gera. Eiga þessir menn að fá til þess leyfi að halda áfram á þessari braut þegar búið er að afskrifa af þeim þær skuldir sem þeir hafa safnað í óskildum rekstri.

Nýtt Ísland verður og á að byggja á því að hagur almennings sé settur í forgang. Almenningur getur líka farið eins og þau fyrirtæki sem sífellt hóta því að fara úr landi ef tryggja á að þau fari að lögum eða að hagur þeirra sé ekki settur ofar hag almennings. Bankarnir hótuð að fara úr landi nema því að aðeins að þeir fengu að gera það sem þeir vildu. Það vita allir hvernig það fór. Hvert ætla núverandi útgerðarmenn að fara ef þeir fá ekki að umgangast auðlinda hér eftir sem hingað til. Ætla þeir að hætta að gera út og selja frá sér skipin, og hvað með það. Það kemur alltaf maður í manns stað.

Ætlar Samfylking og Vinstri Grænir að selja öll sín kosningaloforð fyrir sérhagsmuni fárra?

Kæri Haukur

Þetta er svar mitt við svargrein frá Hauki, hún birtist á 245.is og er slóðin hér:

http://245.is/displayer.asp?page=44&Article_ID=5916&NWS=NWS&ap=NewsDetail.asp&p=ASP\~Pg44.asp


Álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna

Um Mannréttindanefnarálit Sameinuðu þjóðanna:

http://skutull.is/heiti_potturinn/Alit_Mannrettindanefndar_Sameinudu_thjodanna


Atvinnuleysi meðal leiguliða

Ástandið í sjávarútvegsmálum þessa stundina er með eindæmum og algjörlega óviðunandi. Nú þegar þjóðfélagið þarf á öllum þeim tekjum að halda sem hægt er að afla.

Sægreifarnir leigja ekki frá sér eitt einasta gramm. Leiguliðarnir fá ekki aflaheimildir og eru þeir að binda báta sína við bryggju og segja upp mannskapnum. Skýringin á þessu er að sægreifarnir virðast ætla að svelta og útríma leiguliðunum áður en fyrningin verður tekin upp 2010 til að tryggja stöðu sína.

Margir sjómenn hafa verið að hringja í mig undanfarnar vikur til að ræða við mig um þetta ófremdarástand. Þeir hafa áhyggjur af afkomu sinn og þeirra manna sem þeir þurfa að segja upp. Þeir eru reiðir og eru orðnir langþreyttir á núverandi ástandi.  Þeir hafa ekki hátt á opinberum vettvangi vegna ótta við að fá ekki þá fáu brauðmola sem falla af borðum greifanna.

Þessu má breyta í dag ef Jón sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin hefðu kjark, dug og þor til að gera þær breytingar sem þarf.  Það á að bæta við 15.000 tonnum í ýsu, ufsa og þorski  og taka hana út fyrir aflamark, einnig á að taka rækju og skötusel út úr kvóta og leyfa frjálsar veiðar á þeim tegundum. Þetta á að gera nú þegar því þetta þolir enga bið.

Á síðasta fiskveiðiári nýttum við ekki 60.000-70.000 tonn af bolfiski auk rækju sem var geymt á milli ára vegna geymsluréttar sem í dag er 33%. Þessu þarf líka að breyta strax niður í 5%.

Það er engin ástæða til að bíða eftir töfralausnum í sambandi við atvinnumál eða leiða til að auka þjóðartekjur. Það er hægt að gera strax án þess að til þess þurfi að koma lánveitingar eða fjárfestingar upp á milljarða.

Það er synd að vita til þess að með einfaldri aðgerð er hægt að hækka atvinnustig, auka þjóðartekjur og auka bjartsýni meðal almennings allt sem þarf er dugur, þor og kjarkur.


Ylrækt

Ég hef áður bent á það í ræðu og riti að það þurfi að styðja við ylrækt hér á landi. Þetta er nauðsynlegt að gera til að skapa atvinnu, tekjur og spara gjaldeyri.

Garðyrkjubændur geta framleitt meira fyrir innanlandsmarkað. Einnig væri mögulegt að framleiða ákveðnar tegundir til útflutnings nú þegar gengi krónunnar er eins og raun ber vitni.

Það er vont til þess að vita að garðyrkjubændur þurfi að draga úr framleiðslu sinni eins og Bjarni Jónsson, framkvæmdarstjóri Sambands garðyrkjubænda bendir á í dag í frétt á Vísi, is. Hann segir að garðyrkjubændur hafi slökkt á lýsingu í gróðurhúsum í sparnaðarskyni. Þetta segir hann að hafi komið niður á framleiðslunni og þetta muni leiða til meiri innflutnings á grænmeti.  

Það er nauðsynlegt að líta á heildarmyndina þegar ákveðið er að setja á skatta. Ef orku-, umhverfis- og auðlindagjöld leiða til þess að meira þurfi að flytja inn af grænmeti er það ekki þjóðhagslega hagkvæmt.

Það þarf að styðja við framleiðslu garðyrkjubænda í stað þess að skattleggja þá þannig að þeir þurfi að dragi úr framleiðslunni.

Það þarf að horfa á heildarmynd skattlagningar sama á hvaða sviðum það er.

Skattlagning sem á að leiða til tekjuaukningar fyrir ríkissjóð en verður til þess að draga úr atvinnu og tekjum er ekki forsvaranleg.

 


Pólitísku trúðarnir í Frammsókn

Það kom á daginn það sem allir vissu að pólitísku trúðarnir í Farmsókn urðu sér til skammar og að atlægi á alþjóðavettvangi með því að telja sjálfum sér og  þjóðinni trú um það væri hægt að fá lán hjá Norðmönnum án þess að það væri tengt deilu okkar við Breta og Hollendinga.

Þeir gerðu ekki aðeins sjálfa sig að fíflum heldur vöktu þeir upp von hjá þjóðinni um að hægt væri að fá lán hjá frændum okkar án þess að það yrði tengt AGS. Þeir fóru fram með lýðskrumi.

Forsætisráðherra Norðmanna Jens Stoltenberg var búin að lýsa því yfir fyrr á árinu að Norðmenn myndu ekki lána okkur pening nema í tengslum við AGS. Þessir ágætu framsóknarmenn töldu að hægt væri að fá lán vegna loforðs eins þingmanns úr systurflokk þeirra úr norska bændaflokknum. Þannig gerast bara ekki kaupin á eyrinni, því er nú ver.

Þeir eru með þessu að reyna að slá pólitískar keilur sem veldur því einu að skapa meiri óróa og deilur og vekja á sér athygli nú þegar við þurfum að fara að komast af standstað sem við erum búin að vera á í heilt ár.

Það sem þarf er samstaða og að menn horfi á það sem raunverulega er að gerast. Pólitískar keilur geta menn leift sér að slá í venjulegu árferði en í því ástandi sem nú er í þjóðfélaginu er það arfavitlaust.

Pólitísku trúðarnir í Framsókn eiga að skammast sín og biðja þjóðina afsökunar á þessu bulli.

 


Frjálslyndir og kaffi

Í dag verða Frjálslyndir af Suðurnesjum á skrifstofu flokksins að Lynghálsi 3 í Reykjavík á milli 16-18.

Um staðsetningu sjá hér: http://xf.is/frettir/nr/93030/


Svar við grein ungs sjálfstæðismanns

Í tilefni að grein sem Haukur Andreasson skrifar og birtist hér á 245.is langar mig að vekja athygli Hauks og annars ungra sjálfstæðismanna á eftirfarandi atriðum.

Í lögum um stjórn fiskveiða er tekið fram að aldrei myndist eignarréttur á óveiddum fiski í sjónum. Þannig að eignarréttarákvæðið í 72. gr. í stjórnarskrár Íslands á ekki við í þessu tilviki. Útgerðarmenn eiga ekki fiskinn í sjónum heldur hafa aðeins nýtingarréttinn. 


Varðandi afleiðingar fyrningarleiðarinnar sem Haukur bendir á sem afleiðingu hennar ber að benda á að nú þegar eru flest útvegsfyrirtæki í landinu yfirskuldsett og verið er eða kemur til með að þurfa að afskrifa að þeim skuldir upp á milljarða. Þetta er vegna þess að sægreifarnir hafa farið með aflaheimildir á óábyrgan hátt með því að veðsetja þær. Með því hafa þeir tekið út úr greininni fjármagn og stendur útvegurinn eftir yfirskuldsettur.  Braskað hefur verið með veiðiheimildir og leiguliðar orðið til. Leiguliðar sem eiga allt sitt undir því að molar detti af borðum sægreifanna.

Einnig er hollt fyrir Hauk og aðra unga sjálfstæðismenn að lesa það sem Þorvaldur Gylfason hefur sagt um núverandi kerfi og afleiðingar þess fyrir þjóðarbúið og þeirrar kreppu sem við erum nú að fást við og set ég hluta af grein hans sem birtist í Fréttablaðinu 9.okt. 2009 hér með, þeim til fróðleiks;

"Einn angi vandans er lagaheimild frá 1997 til að veðsetja veiðiheimildir, þótt sjávarauðlindin eigi að heita sameign þjóðarinnar að lögum. Lögin leyfa mönnum beinlínis að veðsetja eigur annarra. Menn kasta höndunum til fjárfestingar fyrir lánsfé með veði í eigum annarra, enda ramba skuldum vafin útvegsfyrirtæki nú mörg á barmi gjaldþrots.
Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur úrskurðað, að kvótakerfið feli í sér mannréttindabrot, og skorað á stjórnvöld að breyta kerfinu”.

Einnig ber að benda Hauki og félögum á að núverandi kerfi hefur ekki orðið til þess að vernda fiskistofnana né hefur það orðið til þess að hægt væri að auka veiðar eins og upphaflegt markmið þess var. Kerfið hefur leitt til slæmrar umgengni um auðlindina sem fellst m.a. í brottkasti.

Framhjálöndum en einnig einn spillingar angi þessa kerfis og verður til þess að til er svart hagkerfi í sjávarútvegi sem bitnar á þjóðfélaginu öllu í formi minni tekna.

Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi á að leggja af og er það forsenda þess að hægt sé að byggja upp nýtt Ísland þar sem sérhagsmunir fárra er ekki látinn ganga fyrir heildarinnar.

Samþykkt SUS

Mér hefur verið bent á hluta af samþykkt SUS um núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og langar mig að deila því með ykkur. Ætla mætti að þetta hefði verið samið eins og lögin um stjórn fiskveiða á skrifstofu LÍÚ.

Brot úr stefnu Sambands ungra sjálfstæðismanna, en stefnan var yfirfarin nú nýverið á þingi Sus á ísafirði.

“Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið stuðlar, ólíkt flestum öðrum, að aukinni verðmætasköpun í greininni á meðan það kemur í veg fyrir ofveiði og verndar nytjastofna. Lykillinn að þessu tvennu eru framseljanlegar aflaheimildir. Með því að aflaheimildir geti skipt um hendur á opnum markaði eru mestar líkur á að þær rati í hendur þeirra sem skapa úr þeim mestu verðmætin, sér og þjóðinni til heilla. Nauðsynlegt er að standa vörð um þennan undirstöðuatvinnuveg okkar Íslendinga, sérstaklega nú á tímum. Því frábiður SUS sér allar hugmyndir um gjörbyltingu fiskveiðistjórnunarkerfisins með því að taka aflaheimildir úr höndum þeirra sem hafa keypt þær á opnum markaði.


Hryðjuverkalögin

Þrátt fyrir að ekki sé hægt að breyta því sem gerðist í fortíðinni er samt hægt að íhuga hvað betur hefði mátt fara. Það er nausynlegt að gera til að læra af mistökunum.

Það er mín skoðun og hefur verið frá því að Bretar settu á okkur hryðjuverkalög að við hefðum átt þá og þegar að slíta stjórnmálasambandi við þá. Ég lagði þetta til á Alþingi, strax eftir hrun. Ég vildi að við kölluðum okkar sendiherra heim og sendum sendiherra Breta úr landi. Ég taldi að við hefðum átt að nota sömu aðferð gegn Bretum í tenglum við hryðjuverkalögin eins og við gerðum í landhelgisstríðunum.

Það er skoðun mín af við hefðum átt að berjast fyrir rétti okkar án þess að hræðast það að við yrðum útskúfuð úr alþjóðasamfélaginu. Þegnar þessa lands eru mikilvægari en kokteilboð alþjóðasamfélagsins.

Hryðjuverkalögin bitnuðu ekki aðeins á Landsbankanum heldur höfðu þau einnig áhrif á efnahagslífið allt. Það nægir mér ekki að Bretar segi að hryðjuverkalögunum hafi verið beitt gegn bönkunum, þau bitnuð á þjóðinni allri.

Mörgum spurningum er enn ósvarað um það ferli sem olli því að hryðjuverkalögin voru sett á þjóðina. Það er nauðsynlegt að við fáum að vita hvað varð þess valdandi.

Var það ekki í verkahring Seðlabankans að fylgjast með gjaldeyrisviðskiptum? Af hverju var ekki gripið inn í það ferli þegar bankarnir og stjórnendur þeirra hófu að flytja peninga frá útibúum sínum í Bretlandi hingað til lands?  Ef það var ástæða þess að hryðjuverkalögin voru sett að það voru óeðlilegir flutningar á peningum frá Bretlandi til Íslands.

Það er mögum spurningum ósvarað um þetta mál sem verður af fara að fást svör við. Aðeins þannig getum við farið að horfa til framtíðar.

 

 


Við getum mildað höggið

Þessa daganna er verið að boða skattahækkanir, hækkanir á vörugjöldum og niðurskurð á velferðarkerfinu.

 

Foreldrar tíu þúsund barna eru atvinnulausir og það lítur út fyrir að atvinnuleysi eigi eftir að aukast enn frekar á næstu mánuðum.

 

Til að minnka það mikla högg sem hrun bankakerfisins hefur haft í för með sér þarf að auka þjóðartekjur.

 

Það er ekki hægt að bíða eftir því að eitthvað gerist í þeim málum. Við verðum hér og nú að nýta þær auðlindir sem við eigum til atvinnusköpunar og til að auka þjóðartekjur.

 

Þetta er hægt að gera með því að breyta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfinu strax. Nú er því þannig háttað að kvótahafar/eigendur hafa leyfi til að geyma 33% af óveiddum fiski á milli fiskveiðiára. Þetta er að sjálfsögðu algjört bull sérstaklega í því árferði sem er hér í dag.

 

Geymsluréttin á að afnema strax því á síðasta fiskveiðiári þýddi þetta að ekki voru veidd 25.000 tonn af þorski, 20.000 af ýsu, 20.000 tonn af ufsa, rækjukvótinn er ekki fullnýttur og ýmsar aðrar tegundir. Í tekjum má áætla að þetta séu um 20 -30 milljarðar. 400-500 störf til sjós tapast og annað eins í landi. Þjóðartekjur eru því minni en þær þyrftu að vera út af  arfavitlausu fiskveiðistjórnunarkerfi.  

 

Núna í þessu árferði ætti að bæta við veiðiheimildir í þorski um 100.000 tonn, 30.000 tonn í ýsu og 30.000 tonn í ufsa. Einnig á að taka skötusel út úr kvóta og láta veiða eins mikið og hægt er af honum. Rækjuveiðar á að gefa frjálsar.

 

Þetta myndi strax leiða til meiri tekna og minna atvinnuleysis.  Skipin eru til og mannskapur með reynslu, þekkingu og vilja til að leggja sitt að mörkum við að koma þjóðfélaginu á réttan kjöl. Það sem þarf er kjarkur, dugur og þor til að breyta núverandi kerfi þannig að heildarhagsmunir þjóðarinnar séu hafðir að leiðarljósi en ekki sérhagsmunir fárra.

 

Látum ekki LÍÚ klíkuna og grátkór þeirra verða þess valdandi að eina leiðin sem fær sé til að borga fyrir óráðsíu útrásarvíkinganna og þeirra fylgismanna sé að skattpína þegna landsins til helvítis.

 

 


Ásmundur og ríkið

Í gær hófust málaferli í Héraðsdómi gegn Ásmundi Jóhannssyni og verður spennandi að fylgjast með hvernig tekið verður á því máli.

Ásmundur fór á sjó án þess að hafa veiðiheimild til að ögra núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.

Verjandi Ásmundar mun eflaust nota plagg frá Mannréttinda nefnd Sameinuðu þjóðanna máli Ásmundar til stuðnings.

Nefndin hefur þegar gefið það út að íslenska ríkið eigi að borga tveim sjómönnum frá Tálknafirði skaðabætur vegna þeirra mannréttindabrota sem kvótakerfið leiðir til.


Varðhundar sægreifanna funda

Á bb.is er í dag fréttatilkynning frá sambandi ungra sjálfstæðismanna sem boða til fundar um sjávarútvegsmál í Edinborgarhúsinu á Ísafirði 25. september 2009.

 

Það sem vekur furðu er að framsögumenn á þessum fundi eru aðal varðhundar núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis. Menn sem búsetu sinnar vegna hafa horft á byggðirnar lagðar í rúst vegna núverandi kerfis. Þeir ætla samt að reyna enn og aftur að sannfæra sjálfan sig og nú unga sjálfstæðimenn um að þetta sé besta kerfi sem fundið hefur verið upp.

 

Kerfið hefur ekki bara lagt sjávarbyggðir á vestfjörðum í rúst heldur hefur það einnig rústað efnahagskerfi landsins.  

 

Almenningur á vestfjörðum hefur horft á eftir sægreifunum yfirgefa byggðirnar í rjúkandi rúst. Þeir hafa selt þann kvóta sem þeir fengu vegna dugnaðar þess fólks sem vann fyrir þá, til sjós og lands. Sumir þeirra hafa friðað samvisku sína með því að gefa kvótalausum byggðarlögum einn og einn gamlan snjósleða eða tekið 1.000.000 upp úr töskunni til að sýna samfélagslega ábyrgð eða friða slæma samvisku.

 

Halldór Halldórs ætti að vita manna best hvaða áhrif fiskveiðistjórnunarkerfið hefur haft fyrir fjárhagsstöðu Ísafjarðarbæjar eða ætlar hann einn og óstuddur að taka á sig slæma stöðu bæjarfélagsins.

 

Einari Guðfinnssyni ætti að nægja að fá sér bryggjurúnt í sinni heimabyggð til að sjá afleiðingar núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis og Teitur Björn Einarsson ætti að gera hið sama.

 

Þessu kerfi fylgja mannréttindabrot, vilja menn virkilega vera mannréttindaníðingar áfram.

Brotin loforð

Í stjórnarsáttmálanum er sagt að fyrna eigi núverandi veiðiheimildir en ekkert bólar á því og nú er Jón Bjarnason að bakka út úr fyrningarleiðinni.

 

Það er nógu slæmt að það var ekki byrjað 1. september 2009 að fyrna og því frestað um eitt ár heldur er einnig nú verið að boða frekari seinkun á fyrningarleiðinni eða afnám hennar.

 

Það er skelfilegt til þess að vita að ekki á að standa við stjórnarsáttmálann þar sem fyrningarleiðin var boðuð. Það átti að taka á spilltasta kerfi sem til er í landinu. Kerfi sem átti þátt í því efnahagshruni sem við erum nú að glíma við.

 

Núverandi kerfi er brot á mannréttindum fólksins í landinu og við því hefur ekki verið brugðist. Það er til skammar.

 

Þetta gerir hann þrátt fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason ásamt Ögmundi Jónassyni, Guðjóni Arnari Kristjánssyni og undirrituðum fluttu þingsályktunartillögu um að það ætti að virða mannréttindi á íslenskum sjómönnum.

 

Jón Bjarnason hefur svikið íslenska sjómenn með því að borga ekki skaðabætur til þeirra sjómanna sem Mannréttinda nefnd Sameinuðu þjóðanna taldi að ættu að fá bætur vegna mannréttindabrots  sem fiskveiðistjórnunarkerfið leiddi til.

 

Jón felur sig nú á bak við nefndina sem á að endurskoða núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Þessi nefnd er þannig skipuð að í henni eru tveir fulltrúar útvegsmanna, Svanfríður Jónasdóttir sem er tengd inn í kvótafjölskyldu, formaður Landsambands smábátaeigenda en í nefndinni er engin fulltrúi almennings og engin fulltrúi sjómanna með lítinn eða engan kvóta.

 

Jón Bjarnason virðist þegar hafa gefist upp fyrir L.Í.Ú. klíkunni. Jón Bjarnason leyfir auðvaldssinnum og núverandi kvótaeigendum að halda áfram braskinu þrátt fyrir að flestir þeirra séu nú gjaldþrota. Þeir eiga að fá að reka fyrirtækin sín áfram og halda sjávarútveginum í greipum skulda og yfirveðsetningar.  Þeir fá að halda áfram að stela út úr útvegs fyrirtækjunum peningum og eignum, með blessun ríkisbankanna (og nýju bankanna)

 

Jón hefur brugðist alþýðu þessa lands og fólkinu sem kaus hann og trúði því að hann vildi gera breytingar á óréttlátasta fiskveiðistjórnunarkerfi sem sögur fara af.

 

Það þarf dug, þor og kjark til að berjast fyrir réttlæti og það hefur Jón Bjarnason bersýnilega ekki eða hvað? Hann hefur fengið ráðherrastól á fölskum forsendum. Hann lofaði en sveik. Guð fyrirgefi honum.

 

Baráttunni um afnám kvótakerfisins er ekki lokið og nú verða allir þeir sem vilja þetta kerfi í burtu að snúa bökum saman hvar sem þeir standa í pólitík. Þetta mál varðar hagsmuni allrar þjóðarinnar og því verður að breyta.

 

Nýtt ísland þarf að byggja á jöfnuði, jafnrétti og jafnræði þegnanna og afnám fiskveiðistjórnunarkerfisins er forsenda þess.

 

Grétar Mar Jónsson

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband