Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ályktun frá stjórn Frjálslynda flokksins

Stjórn Frjálslynda flokksins gerir þá kröfu að þing verði rofið og boðað til kosninga eins fljótt og verða má. Þetta er nauðsynlegt vegna þess að:

Niðurstöður atkvæðagreiðslu gærdagsins varðandi Landsdóm sýndu og sönnuðu að núverandi þingmenn eru ekki í stakk búnir til að takast á við það verkefni að skapa sátt við almenning í landinu.

Núverandi Alþingi sýndi og sannaði að pólitískar flokkslínur skipta meira máli en hagsmunir almennings og að enginn vilji er til að taka á pólitískri samspillingu.

Núverandi Alþingi sýndi engan vilja til þessa að gera upp fortíðina og draga til ábyrgðar þá sem raunverulega hafa valdið þjóðinni ómældu tjóni sem almenningur ber nú skaðann af með skertum lífskjörum um ókomna framtíð.

Landeyjahöfn

Þessi grein var birt í Eyjafréttum á "góðum" stað þegar Landeyjahöfn var vígð. Við undirritaðir vorum kallaðir svarsýnismenn og að höfnin væri hönnuð af okkar færustu sérfræðingum.

Landeyjahöfn

 

Það er full ástæða til að óska íbúum Vestamannaeyja  og öðrum landsmönnum til hamingju með að búið er að opna Landeyjahöfn. Þetta er mikil samgöngubót fyrir íbúa Vestmannaeyja sem gæti gefið mikla möguleika þegar til framtíðar er litið. Höfnin mun geta leitt til eflingar í ferðamannaiðnaði í eyjunum. Samstarf sveitarfélaga á svæðinu gæti aukist á öllum sviðum hvað varðar mennta-, heilbrigðis-, og atvinnumálum.

 

En það gæti verið galli á gjöf Njarðar sem við reyndir skipstjórnarmenn höfum haft og höfum enn miklar áhyggjur af og það er að ekki verði hægt að nota Landeyjahöfn fyrir Herjólf þegar tíðarfar er slæmt.

 

Það er rif 300 metra fyrir utan innsiglinguna sem brýtur á í 4. metra ölduhæð og oft getur brotið á þessu rifi þegar vindur er að ganga í norðan og norðaustan áttir. Við höfum talið að varnagarðarnir hefðu þurft að ná út fyrir rifið til að koma í veg fyrir grunnbrot.  Þessa skoðun byggjum við á reynslu okkar sem skipstjórnarmenn úr Sandgerði og Grindavík þar sem oft brýtur undir norðanáttum og þá getur verið varhugavert að sigla á grunnsvæðum með suðurströndinni.

 

Vegna þessa teljum við að það sé nauðsynlegt að Þorlákshöfn verði varahöfn fyrir siglingar Herjólfs, í að minnsta kosti eitt ár, þar til ljóst verður hvernig samgöngur ganga til Landeyjahafnar.

 

Grétar Mar Jónsson, skipstjóri Sandgerði.

Ólafur Sigurðsson, skipstjóri Grindavík.


Ályktun frá stjórn Frjálslynda flokksins

Stjórn Frjálslynda flokksins harmar það að sjávarútvegsráðherra ætli einu sinni enn að fara eftir reikningsfiskifræði Hafrannsóknarstofnunnar varðandi hámarksafla á komandi fisveiðiári.    

Stjórn Frjálslynda flokksins telur að í því hörmulega ástandi sem nú ríkir í þjófélaginu sem kemur fram í  miklu og langvarandi atvinnuleysi og niðurskurði á öllum sviðum velferðarkerfisins að það sé ekki forsvaranlegt að fara í blindni eftir ráðgjöf sem aldrei hefur gengið upp og gengur í berhögg við viðtekna vistfræði.  

Stjórn Frjálslynda flokksins krefst þess að bætt verði við veiðiheimildir þannig að þorskaflinn verði aukinn um a.m.k. 100 þúsund tonn og sömuleiðis blasir við að rétt sé að auka sókn í aðrar fisktegundir. Auknar veiðar leiða til aukinna tekna og draga strax úr atvinnuleysi. Stjórn

Frjálslynda flokksins undrast og lýsir yfir miklum vonbrigðum með að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar virðist ekki ætla að breyta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi í haust eins og gefin voru hátíðleg fyrirheit um í aðdraganda síðustu kosninga og fest var með skýrum hætti í stjórnarsáttmálann.
 

Stjórn Frjálslynda flokksins fagnar ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að gefa veiðar frjálsar  á úthafsrækju enda hefur það verið baráttumál Frjálslynda flokksins frá stofnun hans að fækka kvótabundnum tegundum.            

Það er krafa stjórnar Frjálslynda flokksins að ríkisstjórn Íslands virði mannréttindi íslenskra sjómanna sem ekki eru virt í dag samkvæmt áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2007.

Enn um fyrningu.

Björn Valur sem er nú orðin aðal klappstýra LÍÚ heldur því fram að stærsti hluti þeirra fyrirtækja sem eiga kvóta fari á hausinn ef staðið verður við fyrningu sem lofað var að yrði farin í stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar.

Dæmið lítur þannig út að fyrirtæki sem á 10.000 tonn yrði fyrir 5% skerðingu. Þetta þýðir að það gæti veitt 9.500 tonn af eigin kvóta áfram. Þessu til viðbótar gæti þetta fyrirtæki eins og aðrir boðið í eða fengið úthlutað af þeim potti sem verður til við fyrninguna. Þetta fyrirtæki ætti því eftir fyrningu meiri möguleika til að auka veiðar miðað við núverandi aðstæður. Forsenda þessa er þó að fyrirtækið sé vel rekið.  

Að halda því fram að stærstur hluti sjávarútvegsfyrirtækja í landinu þoli ekki 5% fyrningu er það sama og að segja að þau séu það illa rekin og að þau þoli engar sveiflur í veiðum.

Maður spyr hvað myndi gerast ef Hafró legði til að skerða núverandi kvóta um meira en 5% sem yrði þá gert í nafni þess að verið væri að vernda fiskistofnana gegn ofveiði.

Tekjur útgerðarfyrirtækja hafa aukist um helming eftir fall krónunnar. Ef það gerir þeim ekki kleift að leigja til sín kvóta í samkeppni við aðra sem nú eru leiguliðar þeirra þá er spurning hvort þeim er viðbjargandi. Það er því ekki hægt að kenna bankahruninu um slæma stöðu þeirra.

Það er ekki forsvaranlegt að íslenskur almenningur bjargi fyrirtækjum frá þroti sem hafa verið illa rekin þar sem arðurinn hefur verið notaður í óskyldan rekstur eins og dæmin sýna.

Það er rétt að mynna á það að þegar Færeyingar lentu í kreppu árið 1990 voru þeir neyddir af Dönskum bönkum til að taka upp sviðað fiskveiðistjórnunar kerfi eða aflamarkskerfi eins og er hér á landi. Eftir eitt og hálft ár áttuðu Færeyingar sig á því að brottkast og brask var ekki leiðin út úr kreppunni og því tóku þeir upp dagakerfi við stjórn fiskveiða.

Það þarf að tryggja öllum sama rétt til að nýta auðlindir landsins.

Það er komin tími til að mannréttindi íslenskra sjómanna verð virt.

Það verður að hafa heildarhagsmuni allra að leiðarljósi en ekki sérhagsmuni fárra.

Nauðsynlegt er að aðskilja veiðar og vinnslu og setja allan afla á fiskmarkað.

Í tilefni af 1. maí baráttudegi verkalýðsins.

Kvótahafar hafa í gegnum tíðina komist upp með það að leigja frá sér veiðiheimildir til þeirra sem hafa ekki heimildir. Með því hefur orðið til leiguliðakerfi í sjávarútveg sem ég ásamt fleirum hafa barist gegn.

Þegar núverandi sjávarvegsráðherra ákvað að gera breytingar á skötuselsveðum með þeim hætti að leigja beint frá ríkinu heimildir þá vakti það von hjá mörgum sem töldu að nú yrði eitthvað gert til að brjóta upp arfavitlaust kerfi. Menn sáu möguleika á að gera út án þess að vera háðir því að leigja gjafa kvóta frá útgerðarmönnum.  

Það hefur mikið gegnið á við að koma lögum um skötuselsveiðar í gegnum þingið. Grátkór sægreifanna hélt því fram að verið væri að gera aðför að þeim og taka af þeim eitthvað sem þeir þó áttu aldrei.

Nú eftir mikla baráttu er búið að úthluta skötuselskvóta og viti menn allt sægreifastóðið sækir um kvóta. Þeir sem hafa verið að leigja frá sér kvóta fyrir 330 kr. kílóið fá nú eins og þeir sem engan kvóta eiga að leigja úr þessum potti á 120 kr. kílóið. 
 

Það er hægt að færa rök fyrir því að nauðsynlegt sé að gæta jafnræðist í þessu sem og örðu. En þá verður að vera jafnræði á öllum sviðum í kvótakerfinu. 

Það vekur furða að eftir öll þau læti sem verið hafa í kringum þessar breytingar á kerfinu varðandi skötusel. makríl og strandveiðar að það er aðeins verið að tala um 2% af heildar úthlutun veiðiheimilda sem eru ca. 400 þúsund þorskígildi. Af þessum 2% munu sægreifarnir nýta 60-70% en  nýliðar, kvótalitlir og kvótalausir munu koma til með að nýta 30% af þessum 2%.  

Það má einnig geta þess að sægreifarnir fengu allan makríl kvótann til sín án þess að borga krónu fyrir og engin annar kemur til með að geta nýtt þau fáu þúsund tonn sem sett voru til hliðar fyrir kvótalausa eða þá sem ekki höfðu svokallaða veiðireynslu. Ástæðan er sú að til að geta stundað makrílveiðar þarf að vera til staðar meðafli í síld.  

Þetta er brandari. Það er búið að gefa fólki vonir um breytingar með skötusel strandveiðum og makríl.  En breytingarnar eru ekki að skila neinu. Öll loforðin hafa ýtt undir væntingar um að menn gætu aflað tekna fyrir sig og sína .Það verður ekki raunin með þessu fyrirkomulagi. Það er hægt að breyta þessu með breytingum á reglugerðum. Til dæmis að banna þeim sem hafa leigt frá sér kvóta að leigja til sín kvóta og ég mælist til að svo verði gert.

Fyrir ykkur sem hafið áhuga á að skoða úthlutina er það hægt hér   .

Ég sendi ykkur öllum baráttukveðjur.

Strandveiðar.

Menn í sjávarbyggðum landsins bíða nú eftir því að fá að fara að stunda strandveiðar. Strandveiðarnar í fyrra sumar gegnu vel og voru mikil lyftistöng fyrir sjávarbyggðir landsins.

Þær sköpuðu atvinnu, tekjur fyrir fjölskyldur, sveitarfélög og ríkið. Maður hefði ætlað að það væri mikill vilji til þess hjá stjórnvöldum að tryggja að þessar veiðar yrði stundaðar í sumar frá 1. maí að teknu tilliti til ástandsins í landinu.

Ástandið er þannig núna að enn hafa ekki ný lög um standveiðar farið í gegnum þingið. Það hefur verið talað um að þessar veiðar mættu hefjast 2. maí en það verður ekki ef fram heldur sem horfir. Málið er enn í meðförum þingsins og er önnur umræða þess nú í gangi. Það á eftir að klára hana og þá á málið aftur eftir að fara í nefnd áður en það verður tekið í þriðju umræðu og síðan til samþykktar eða höfnunar.

Þeir sem hafa fylgst með útgerð hér á landi vita að strandveiðar hafa ekki verið efst á óskalista L.Í.Ú. sem eins og þeir vita sem vilja, ráða því sem þeir vilja ráða í tengslum við stjórn fiskveiða hér á landi.

Það skiptir miklu fyrir sjávarbyggðir landsins að standveiðar geti hafist 2.maí og því verða lög og reglugerðir að liggja fyrir, fyrir þann tíma.

Nú verða menn að fara að taka hendur úr vösum og fara að sinna málum sem skipta fólkið í landinu máli. Málum sem skapa atvinnu og tekjur.


Skýrslan og það sem vantar.

Það ber að fagna útkomu skýrslunnar hún er góð svo langt sem hún nær.

Það sem vantar er að farið sé aftur til ársins 1990 þegar að frjálsa framsalið var sett á. Að mati Þorvaldar Gylfasonar er frjálsa framsalið grunnurinn að banka hruninu 2008.

Einnig hefði ég viljað sjá að siðferðisnefndin hefði fjallað um mannréttindabrot gegn íslenskum sjómönnum.

Það verður ekki hægt að byggja upp nýtt ísland fyrr en tekið verður á þessum þætti í sögu lands og þjóðar.

Þrátt fyrir þessa annmarka skýrslunnar þá gefur hún tilefni til þess að hreinsa til í stjórnkerfinu og taka á sérhagsmunum  fárra sem hindra að hagsmunir almennings hafi forgangi í íslensku samfélagi.

Það er margt sem þarf að gera nú þegar og eitt af því er að skipa landsdóm. Hér er ályktun Frjálslynda flokksins varðandi landsdóm.

 


Makríll

Skötuselsfrumvarpið var hænuskref í þá átt að breyta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og það voru margir sem fögnuðu því og töldu að nú væri komið fordæmi til að gera varanlegar breytingar á fiskveiðastjórnunarkerfinu. Menn töldu að Jón sjávarútvegsráðherra hefði sýnt dug, kjark og þor.

Það liðu ekki nema nokkrir dagar og þá tilkynnti Jón að hann ætlaði að úthluta makríl kvóta eftir gömlu leiðinni. Þeir sem hafa mokað upp makríl í bræðslu undanfarin þrjú ár fá nú, án þess að greiða til þjóðarinnar fyrir nýtinguna, 112.000 tonn af makríl kvóta.

Það er ekki sett vinnsluskilda á veiðarnar en það ætti að gera því með þeim hætti væri tryggt að sem mest verðmæti fengjust fyrir þessar veiðar fyrir þjóðarbúið, sem þarf á öllum þeim tekjum að halda sem hægt er að afla.

Það er smá smjörklípa í reglugerðinni þar sem þeir sem ekki hafa veiðireynslu geta sótt um að fá að veiða og í þann pott verða sett 18.000 tonn eða 12% af heildakvótanum sem skiptist þannig að 3.000 tonn fara til þeirra sem koma til með að veiða makrílinn í net, reknet, línu eða handfæri.
15.000 tonn fara síðan til þeirra sem vilja stund hefðbundnar veiðar í flottroll eða nót. Þeir sem þetta ætla að gera þyrftu einnig að fá síldarkvóta því síld er meðafli í makrílveiðum því annars veiða sægreifarnir þetta allt saman. Það er ekki hægt að stunda hreinar makrílveiðar í nót eða flottroll.

Það hefði að sjálfstöðu átt að setja veiðileyfagjald á makríl kvótann með sama hætti og gert var með skötuselinn. Í skötuselnum er veiðileyfagjaldið til ríkisins ca. 20% af aflaverðmæti en af makríl 0%.

Það er einnig einkennilegt að Jón fór með smá breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu varðandi skötusel í gegnum Alþingi í formi frumvarps en afhendir síðan makríl kvóta til fárra útvaldra með reglugerð.
 

Markmiðið ætti að sjálfsögðu að vera í þessu máli sem og öðrum sem varða þjóðarhag að gæta hagsmuna heildarinnar en ekki sérhagsmuna.

 


Sérhagsmunir eða almannahagsmunir

Það er sorglegt að horfa á stjórnarandstöðu þingmenn úr sjálfstæðis- og framsóknarflokki þar sem þeir standa í pontu á Alþingi Íslendinga og verja sérhagsmuni útgerðarmanna geng hagsmunum almennings.

Skötuselsfrumvarpið skapar 150 mönnum atvinnu, gjaldeyristekjur upp á 1,2 milljarða og leigutekjur upp á 240 miljónir ef 2000 tonnum  af skötusel verður úthlutað. Hafnarsjóðir, sveitarfélög og ríkið koma til með að fá auknar tekjur.

Það er einnig furðuleg afstaða hjá S.A. og A.S.Í. að vera á móti því að skapa fleiri störf og auka tekjur. Það virðist skipta þessi félög meira máli hver fær að skapa störfin heldur það að þau verði til.


Við hverja er verið að leita sátta?

Í ríkisstjórnarsáttmálanum segir að farin skuli fyrningarleið. Fyrningarleiðin átti að vera spor í þá átt að fyrna kerfi sem almenningur í landinu hefur lengi verið ósáttur við. Landsmenn eru ósáttir við kerfið vegna þess að það hefur sýnt sig að hafa ekki almannahagsmuni að leiðarljósi heldur að hygla sérhagsmunum fárra á kostnað heildarinnar.  

Ég ásamt fjölda annarra sem hafa barist gegn núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi stóðum í þeirri trú að með fyrningarleiðinni yrði loksins eitthvað gert til að breyta kerfinu. Breyta því þannig að íslenska ríkið kæmi í veg fyrir að brotin væru mannréttindi á þegnunum. 

Alþýða landsins hefur í gegnum tíðina verð að mótmæla kerfinu með ýmsum hætti og má þar nefna alþýðuhetjuna Ásmund sem lést fyrir aldur fram á þessu ári. Báturinn hans var innsiglaður af ríkinu í meira en heilt ár á meðan dómstólar landsins réttuðu yfir honum. Valdimarsdómurinn er annað dæmi um mann sem fór gegn kerfinu og fór með mál sitt fyrir dómstóla. Dómurinn sagði að allir ættu að standa jafnir gagnvart úthlutun fiskveiðiheimilda. Stjórnvöld snéru hins vegar þannig út úr dómnum að þau sögðu að allir mættu kaupa sér bát.   

Núverandi ríkistjórn setti á  laggirnar nefnd sem átti, að ég hélt, að breyta kerfinu þannig að kæmi yrði í veg fyrir mannréttindabrot á íslenskum þegnum. Að það myndi koma í veg fyrir að atvinnufrelsi þegnana væri skert. Nefndin hefur nú starfað síðan eftir síðustu kosningar. Eins og áður sagði hafði ég fulla trú á því að núverandi vinstri ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð væri í mun að tryggja þegnum sínum jafnrétti, jöfnuð og jafnræði myndi hafa dug, kjark og þor til að breyta kerfinu þannig að almannahagsmunir yrðu tryggðir.  

Á BB.is fyrir helgi birtist grein eftir Guðbjart Hannesson og Ólínu Þorvarðardóttur þar sem farið var yfir það sem nú heitir “sáttaleið” varðandi fiskveiðistjórnunarkerfið. Í greininni er farið yfir þá leið sem nú er unnið að í tengslum við svokallaða fyrningu á fiskveiðistjórnunarkerfinu.  Ég verð að segja að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þær tillögur sem koma fram í grein þeirra vegna þess að hún er ekki lausn á þeirri deilu sem nú er uppi í samfélaginu um að afnema verði sérréttindi fárra á kostnað alþýðunnar.  

Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að núverandi handhafar (eigendur) veiðiheimilda eigi þær og hafi nýtingarréttin áfram í 15-20 ár, gegn veiðigjaldi. Áfram verður kvótalitlum og kvótalausum ætlað að þiggja brauðmolana af nægtaborðum sægreifanna. Þeir geta fengið að veiða það sem sægreifarnir telja ekki arðbært að veiða eða vilja ekki veiða og er það óásættanlegt. Engin nýliðun verður möguleg miðað við þessar tillögur frekar en hingað til. Ungt fólk kemur ekki til með að geta haslað sér völl í greininni við þessi býtti. Og  
þessar tillögur eru ekki til þess fallnar að mannréttindi séu virt. Sjávarpláss sem standa illa og búið er að rústa vegna þess að allur kvóti er farinn koma til með að standa jafn illa ef þetta verður niðurstaða nefndarinnar og ríkistjórnarinnar og þau gera nú miðað við þessar tillögur. 
 
Það þarf að stokka kerfið upp en ekki stagbæta það með tillögum sem hafa það eitt að markmiði að viðhalda því. Ef einhver árangur á verða til framtíðar fyrir sjávarbyggðirnar og þá sem hafa hug á að stunda þessa atvinnugrein verður að taka nú þegar út úr kerfinu ákveðið aflamark úr hverri tegund og leigja það á sama verði og sægreifarnir borga í veiðigjald til ríkisins og þá dugar ekki að tala um neitt minna en 25-30% af úthlutuðum veiðiheimildum. Best væri að taka upp sama fyrirkomulag og Færeyingar hafa á sinni fiskveiðistjórnun og leigja út dagana.  

Það þarf dug, þor og kjark til að koma á breytingum á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Það er ekki auðvelt að taka forréttindin af LÍÚ klíkunni en það verður að gerast. Til að svo geti orðið þarf almenningur að sýna stjórnvöldum að hann sættir sig ekki við það að sérhagsmunum fárra sé viðhaldið. 

Það hafa verið stofnuð samtök um auðlindir í almannaþágu sem heita, Þjóðareign-Samtök um auðlindir í almannaþágu. Þar geta þeir skráð sig sem vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um afnám núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband