Fasteignar ruglið.

Ein stærstu mistök sem Sandgerðisbær hefur gert í gegnum árin var að selja eigur bæjarfélagins til Fasteignar ehf.. Afleiðingar þessa er að upp hefur hlaðist mikill kostnaður fyrir sveitarfélagið.  Einnig leiðir aðkoma sveitarfélagins að Fasteign ehf. til þess að þegar leigusamningur bæjarins við félagið rennur út eftir 20 ár mun sveitarfélagið ekki eiga skólabyggingarnar, félagsheimilið, sundlaugina eða íþróttahúsið.

Nú er rætt um að inn leysa þessar eignir aftur frá Fasteign ehf. til sveitarfélagsins fyrir  ca. 2,5 milljarða. Staðan er hins vegar sú að Sandgerðisbær hefur ekki burði til þess í daga miðað við fjárhagsstöðu bæjarfélagsins. Því tel ég að það væri betra fyrir Sandgerðisbæ að Fasteign ehf. yrði sett í gjaldþrot. Þá hefði  Sandgerðisbær möguleika á að semja við skiptastjóra um yfirtöku á eignum Fasteignar ehf. í bæjarfélaginu. Ég tel að þetta myndi leiða til þess að við gætum fengið eignirnar til baka á hagstæðari kjörum en þeim sem nú er rætt um.

Það voru mikil átök í sveitarfélögum hringinn í kringum landið þegar ákveðið var að stofna Fasteign ehf. og sitt sýndist hverjum. Það hefur komið á daginn að þeir sem voru á móti því að selja eignir sveitafélagins inn í Fasteign ehf. höfðu rétt fyrir sér. Maður getur spurt sig hvaða einstaklingur vilji selja svo til skuldlaust hús sitt til að losa um peninga til þess eins að eyða í dekur og borga síðan fasteignafélagi og banka leigu á sömu eign í tuttugu ár?

Það eina sem aðkoma sveitarfélaganna að Fasteign ehf. leiddi til var að losað var um fé sem síðan var notað af bæjarstjórnarmönnum til að reisa sér minnisvarða á kostnað bæjarbúa án þess að þeir hefðu í huga framtíðar hagsmuni þeirra. Fasteignar ævintýrið í okkar bæjarfélagi hefur leitt til þess að við erum á mörkum þess að missa fjárhagslegt sjálfstæði okkar. Sandgerðisbær er í dag sennilega eitt af skuldsettustu sveitarfélögum landsins.

Við höfum alla burði til að vera stöndugt og vel rekið sveitarfélag því Sandgerðisbær fær ca. 300. milljónir í tekjur frá flugstöðinni og öðrum byggingum á sama svæði. Þess vegna er mikilvægt að það verði kafað ofan í það hvers vegna skuldastaða sveitarfélagsins er eins slæm og raun ber vitni.

Grein birt á 245.is 19-2-2011. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Magnússon

Það var með algjörum ólíkindum Grétar að sveitarfélög skyldu selja eigur sínar með þessum hætti til að geta eytt um efni fram og leggja í hluti sem engin innistæða var fyrir. Þetta er kallað að pissa í skóinn sinn.  Það var aldrei nokkurt vit í því að selja fasteignir sem voru í fullri notkun vegna þarfa sveitarfélaga.   Þessi kafli í stjórnmálasögunni rímar vel við þá óábyrgu eyðslustefnu sem rekin var af stjórnmálamönnum, bankamönnum og útrásarvíkingum fyrir hrun.  En því miður þá virðast allt of margir stjórnmálamenn halda að þeir geti haldið hrunadansinum áfram og sett framtíð ríkis og sveitarfélaga í verulega hættu.

Jón Magnússon, 5.3.2011 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband