Lausnir

Það sem við þurfum nú að tala um hér á landi eru lausnir í sambandi við það atvinnuleysi sem við nú eigum við að glíma. Atvinnuleysið felur í sér margvíslegan vanda bæði fyrir þá sem eru án vinnu en einnig hefur það í för með sér að tekjur til ríkis og sveitarfélaga munu dragast saman. Það er nauðsynlegt að við finnum leiðir til að auka tekjur til að draga úr þeim fyrirséða niðurskurði sem stefn er að í velferðarkerfinu. Við þurfum einnig að auka tekjur til að koma í veg fyrir að skattar verði hækkaðir. Það er einnig nauðsynlegt að nota öll þau ráð sem við eigum möguleika á að nota til að spara gjaldeyri. Það eru til lausnir á þessum vanda og við þurfum ekki að leita langt yfir skammt. Lausnirnar felast í að nota og nýta þær auðlindir sem við höfum yfir að ráða.

Við höfum möguleika á að auka fiskveiðar í flestum tegundum og með því ættu tekjur þjóðarinnar að geta aukist um 70-80 miljarða. Þetta mun leiða til aukinna skatttekna til ríkisins og útsvarstekna og hafnargjalda til sveitarfélaga. Og það sem er ekki síst mikilvægt ef þetta verður gert að fleiri störf koma til með að verða til í greininni.

Í landbúnaði eru miklir möguleikar fólgnir í því að auka til muna framleiðslu á grænmeti fyrir innanlandsmarkað. Með því mætti draga úr innflutningi á þessum vörum og með því væri hægt að spara gjaldeyri. Forsenda þess að hægt sé að auka framleiðsluna er að hún sé samkeppnishæf í verði við innflutt grænmeti. Forsenda þessa er að lækka orkukostnað til garðyrkjubænda. Það er einnig mikilvægt að stofna grasköggla og áburðarverksmiðjur sem annar innanlandsþörfum sem leið til gjaldeyrissparnaðar.

Við verðum að nýta orkuna sem finnst í iðrum jarðar og er til staðar í  fallvötnunum til raforkuframleiðslu. Raforku sem við getum nýtt til atvinnuuppbyggingar í tenglum við iðnað sem þarfnast mikillar orku. Í þessu sambandi má nefna álver, áliðngarða, álþynnuverksmiðjur og netþjónabú.

Það eru miklir möguleikar sem felast í auðlindunum okkar og þær ber að nota og nýta okkur öllum til góðs.

Grétar Mar Jónsson er þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 24. apríl 2009.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband