Gleðilega páska

Ég óska ykkur öllum gleðilegra páska.

Kveðja,
Grétar Mar.


Kosningaskrifstofan í Keflavík

Kosningaskrifstofa Frjálslinda flokksins var opnuð í Keflavík síðastliðin föstudag og er hún staðsett á Hafnargötunni.
Margt var um manninn við opnunina og þakka ég öllum þeim sem sáu sér fært að mæta, fyrir komuna.
Opið verður á skrifstofunni frá kl. 10 og eru allir hjartanlega velkomnir í kaffi og spjall.


Að fresta þingkostningum

Ég lagði það til við forseta Alþingis í gær að fresta þingkostingum um einn mánuð til að okkur þingmönnum gæfist kostur á að ræða þau mál sem ræða þarf áður en þingi verður slitið.

Ég gerði þetta vegna þess að ég tel það mjög mikilvægt að þingmenn hafi tækifæri til að fara um landið til að ræða við kjósendur og þeim gefist tími til þess.

 


Kostningaskrifstofan í Vestmannaeyjum

Ég fór til Vestmannaeyja 27. mars til að vera viðstaddur opnun á kosningaskrifstofu Frjálslynda flokksins þar.

Margt var um manninn á opnunardeginum og átti ég góðar stundir með stuðningsfólki okkar sem og öðrum gestum.

Ég vil þakka öllum þeim flokksmönnum sem komu að opnunni og þeim sem sjá um kosningaskrifstofuna fram að kosningum kærlega fyrir þeirra framlag.

 


Fundur í Grindavík

20. Mars síðastliðin héldum við góðan fund í Grindavík og má segja að þessi fundur hafi verið upphafið af kostningabaráttu okkar í Suðurkjördæmi. 

Mætingin var mjög góð og vil ég nota tækifærið hér til að þakka öllum þeim sem sáu sér fært að mæta.

Á fundinn mættu fyrir hönd Frjálslinda flokksins auk mín, Guðjón Arnar formaður flokksins, Georg Eiður Arnason sem kom frá Vestmannaeyjum til að taka þátt og Kristinn Guðmundson frá Keflavík.

Það voru fjörugar umræður á fundinum og voru margir fundarmanna sem tóku til máls bæði til að spyrja okkur um stefnu Frjálslinda flokksins og til að tjá skoðanir sínar á því ástandi sem við erum nú að glíma við hér á landi þessa daganna.

 


Frjálsar handfæraveiðar og mannréttindabrot.

Við í Frjálslynda flokknum fluttum fyrir nokkrum vikum frumvarp um frjálsar handfæraveiðar og töldum að með því að fá það samþykkt yrði að einhverju leiti komið til móts við dóm Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2007 þess efnis að núverandi fiskveiðastjórnunarkerfi bryti í bága við 26. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um jafnrétti allra manna. Þetta frumvarp okkar er enn fast í nefnd og hörmum við það að ekki sé meiri vilji en raun ber vitni að það komist úr nefnd á þessu þingi.

Þær tvær ríkistjórnir sem setið hafa frá því að dómur Mannréttinda nefndar Sameinuðu þjóðanna féll hafa ekki sýnt neinn vilja til að breyta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og má því með sanni segja að þeir flokkar sem staðið að þessum ríkistjórnum styðji mannréttindabrot.

Núverandi fiskveiðastjórnunarkerfi er ekki bara mannréttindabrot heldur hefur það einnig orðið þess valdandi að margar sjávarbyggðir landsins búa við það að kvótinn hefur verið seldur frá byggðunum. Þetta hefur haft það í för með sér að atvinnu tækifærum tengdum sjávarútveg hefur fækkað. Kerfinu þarf að breyta og tryggja að fiskveiðikvótinn verði í raun auðlind þjóðarinnar.

Það er nauðsynlegt að þingmenn allra flokka geri sér grein fyrir því að ef þeir verða ekki við dómi Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og stuðli að því að breyta núverandi kerfi eru þeir að styðja mannréttindabrot.


Það er vilji fólksins í landinu að núverandi kvótakerfi verði breytt og kom sú krafa sterkt fram í Búsáhaldabyltingunni og það er mikilvægt að það sé hlustað á fólkið í landinu og brugðist við kröfum þeirra.

Grétar Mar Jónsson þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.


Varðstaða um velferð.

Það verður að skera niður bruðlið sem víða er í þjóðfélagi okkar, sérstaklega í opinbera geiranum, og víða þarf að taka til. Í utanríkisþjónustunni þarf að skera niður a.m.k. um helming. Það þarf að selja húseignir og fækka aðgerðalausum eða aðgerðalitlum sendiherrum víða um heim.
Uppsagnir blasa víða við í opinberum stofnunum og því þarf að gæta þess vel að rétt sé staðið að þeim og reyna eftir fremsta megni að minnka frekar starfshlutfall fólks á stórum sem smáum vinnustöðum en að beita uppsögnum.

 

Sums staðar hefur tekist mjög illa til við uppsagnir, eins og suður á Keflavíkurflugvelli, hjá KEF ohf. Lítill sem enginn fyrirvari var á uppsögnum, sem er brot á kjarasamningum og ekki síður siðlaust af íslenska ríkinu að standa að eins og gert var við öryggisverði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það eiga mjög margir um sárt að binda, stöndum saman og hjálpum hvert öðru. Við skulum hafa aðgát í nærveru sálar.
Mörg sveitarfélög standa illa og því legg ég til að Alþingi tryggi með lögum að öll börn í grunnskólum fái fría máltíð einu sinni á dag fimm daga vikunnar.
Við þurfum stjórnlagaþing að kjósa til að endurskoða stjórnarskrána. Við þurfum að gera landið að einu kjördæmi. Við þurfum að breyta kosningalögum, kjósa forsætisráðherra beinni kosningu og tryggja að kjósendur viti hvers lags ríkisstjórn eða stjórnarmunstur verður til eftir kosningar. Kjósendur eiga að fá að stilla upp á lista í kosningum og við eigum að innleiða þjóðaratkvæðagreiðslur í auknum mæli.
Ég vara nýja ríkisstjórn við því að mismuna fyrirtækjum og einstaklingum við uppgjör skulda. Allir skulu jafnir vera. Bankakerfið verður að fara að virka þannig að gömul og ný fyrirtæki fái eðlilega fyrirgreiðslu til starfsemi.
 Nú sem aldrei fyrr þurfum við að standa saman um velferðarkerfi okkar og tryggja þeim sem verst standa viðunandi lífsskilyrði næstu misseri.

Grétar Mar Jónsson þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.

grein birt í Fréttablaðinu.

 


Barbabrellur Framsóknarmanna fyrir kosningar.

Rétt einu sinni enn reynir flokkurinn að slá ryki í augu kjósenda fyrir kosningar með gylliboðum nú 20 % niðurfellingu skulda þar sem ekki fylgir nokkur einasta áætlun um það hvar eigi að taka peninga og hver á að borga reikninginn.


Fjármálaráðherra lét þessi getið í þingumræðuunn að lausleg áætlun um kostnað væri
1200 milljarðar.

 

 Lið fyrir lið eru flest allar átján tillögur Framsóknarmanna, um atriði sem annað hvort  eru nú þegar komnar til framkvæmda í efnahagsmálum eða eru í gangi til vinnslu varðandi efnahagsaðgerðir.


Með öðrum orðum ekkert nýtt, aðeins upptalning á hlutum sem eru í gangi.
Tillögurnar eru kynntar sem niðurstöður úr vinnu hóps hagfræðinga og lögfræðinga sem þingmanninum Birki Jóni Jónssyni varð tíðrætt um að menn skyldu ekki vanvirða.


Það skiptir mig ekki máli hver smíðar lélegar tillögur eins og þessar en tel mér skylt að benda á hversu afdalaléleg hugmyndafræði er þar á ferð. Það er engin heil brú í því að fella niður skuldir þeirra sem ekki þurfa á því að halda líkt og hugmyndir um 20 % flata niðurfellingu skulda innihalda.  Við munum ekki standa undir slíkum skuldbindingum sem þessar tillögur  gera ráð fyrir, en  Framsóknarflokkurinn hefur áður komið fram með hugmyndir svo sem með hækkun lána Íbúðalánasjóðs, sem síðar olli innkomu bankanna á húsnæðislánamarkað sem ekki hafa beinlínis reynst þjóðinni efnahagslega skynsamlegt.


Þvert á móti var þar hellt olíu á eld þenslu í þjóðfélagi þar sem allt var þanið fyrir.


Við skyldum því sannarlega rýna vel í þau gylliboð sem menn draga úr farteskinu fyrir þessar kosningar.


Grétar Mar Jónsson þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.


Frjálslyndi flokkurinn og fjölmiðlarnir.

Hlutverk fjölmiðla í nútímasamfélagi er þýðingarmikið og fyrir okkur sem störfum á vettvangi stjórnmála sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, skiptir það máli að koma skilaboðum um störf okkar gegnum fjölmiðla.

Gera verður þá einföldu kröfu til fjölmiðla að þeir geri kjörnum fulltrúum þjóðarinnar jafn hátt undir höfði. Ríkisfjömiðlar hafa þar enn ríkari skyldum að gegna hvað varðar umgjörð starfa sinna, til þess að gæta að jafnræði.

Það er augljóst að ef fjölmiðlar sinna ekki því mikilvæga hlutverki að koma skilaboðum allra starfandi stjórnmálaflokka sem og þeirra sem nýir vilja bjóða fram , þá er lýðræðinu illa viðbrugðið.  

 Gagnrýni Frjálslynda flokksins á núverandi kerfi fiskveiðistjórnunar hefur sannarlega ekki fengið umfangsmikil efnistök af hálfu manna í fjölmiðlum hér á landi, og spurningar vakna óhjákvæmilega í því efni, svo sem hvort skorti á fagþjálfun fjölmiðlamanna.

Einkum og sér í lagi þegar raunin er sú könnun eftir könnun, sýnir,  að um það bil 70-80 % þjóðarinnar eru á móti núverandi kvótakerfi sjávarútvegsins og ef fjölmiðlar eiga að endurspegla þjóðarsálina þá er þetta vægast sagt mjög sérkennilegt.

Nýleg greinaskrif blaðamanns um flokk sem ekki átti að vera til, en á þingmenn á þingi sem kjósendur hafa kosið þangað ber ekki með sér fagmannlega takta í blaðamennsku og skyldi frekar flokka sem fimmaurabrandara og væri ekki úr vegi að bjóða viðkomandi blaðamanni á námskeið hjá okkur í Frjálslynda flokknum um annmarka íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins til tuttugu ára.

Ég hvet menn hins vegar til þess að taka sér tak í þessu efni og vanda sig því við eigum góða menn í fjölmiðlastétt sem halda uppi heiðri stéttarinnar, en betur má ef duga skal. 

Grétar Mar Jónsson þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.

grein birt í Mbl.


Við þurfum að verja grunnþjónustu samfélagsins.

Núverandi stjórnvöld munu þurfa að huga að því í tíma hvar og hvernig verður skorið niður þannig að standa megi sem mest vörð um grunnþjónustuþætti í heilbrigðis, mennta og félagskerfi. 

Við í Frjálslynda flokknum höfum lengi lagt það til að skorið verði niður í utanríkisþjónustunni, og teljum að nú þegar, skuli þar hafist handa.Jafnframt þarf að koma hjólum atvinnulífs í gang til dæmis með skipulagsbreytingum í sjávarútvegi, þannig að tekjuinnkoma hins opinbera sé fyrir hendi.

Frelsi til veiða með handfæri eins og við höfum lagt til er eitt skref í átt að þeim skipulagsbreytingum.

Það er ljóst að við þurfum að tryggja rekstur bráðasjúkrahúsa í landsfjórðungum, og heilsugæslu á landinu öllu. Þar gildir að viðhafa faglegar forsendur mála um grunnþjónustu á landinu öllu.

Það er einnig ljóst að við þurfum að standa vörð um grunnskólanna og félagsþjónustuþætti sveitarfélaga. Sama máli gegnir um almannaþjónustu eins og  toll og löggæslu.

Mikilvægt er að niðurskurðarhníf verði ekki beitt með handahófskenndum aðgerðum heldur lagt í vinnu við að samræma aðgerðir með heildaryfirsýn yfir alla þætti. Samvinnna og samráð við aðila í almannaþjónustu er grundvöllur sátta um aðgerðir.  

 

Grétar Mar Jónsson þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.

grein birt í Mbl.

Hvalur er hluti nytjastofna á miðunum.

Við eigum að sjálfsögðu að nýta hvali eins og aðra nytjastofna á miðunum kring um landið.

Tekjur af  veiðunum eru taldar geta numið  4 – 5 milljörðum  og skapað um 300 störf.

Hrefnur og langreyði á að veiða en einnig þarf að veiða hnúfubak sem hefur fjölgað  sér mjög mikið á miðunum undanfarin ár og oft svo til vandræða horfir.

Hvalveiðar eru einn hlekkur í lífkeðju hafsins og Hafrannsóknarstofnun leggur blessun sína yfir þessar veiðar.

Sjálfsagt mál  er að leyfa uppboð á hvölum til veiða, þannig að aðgengi  manna að veiðum sé fyrir hendi og samkeppnislögmál i heiðri höfð, eins og  vera skyldi um veiðiheimildir allar í kerfinu.

Meirihlutavilja,  þjóðarinnar á að virða í þessu efni og sannarlega skyldi það sama gilda um fiskveiðistjórnunarkerfið í heild, þar sem meirihluti vill breyta kvótakerfinu.

Hvalaskoðun og veiðar þurfa ekki að vera  á sama punktinum og það er ekki stórt að mála að koma þvi til leiðar að þetta tvennt þurfi ekki að rekast á.

 

Grétar Mar Jónsson  þingflokksformaður Frjálslynda flokksins,

Þingmaður Suðurkjördæmis.

 

Frjálslyndi flokkurinn vill hefjast handa um breytingar.

 

Við í Frjálslynda flokknum viljum bregðast við þeirri hroðalegu stöðu sem þjóðin er í með því að gjörbreyta fiskveiðikerfinu.

 Margir mætir sérfræðingar telja að upphaf hörmunga okkar sé gjafakvótakerfinu að kenna.

Við í Frjálslynda flokknum viljum innkalla allar veiðiheimildir á Íslandsmiðum og leigja út á sanngjarnan hátt og tryggja nýliðun í sjávarútvegi.

 

Við viljum frjálsar handfæraveiðar og smærri báta yfir sumartímann.

 

Við viljum að allur fiskur verði seldur á innlendum fiskmörkuðum.

Við viljum aðskilja veiðar og vinnslu — það þarf að tryggja að allur afli komi að landi, þar á meðal hryggir og hausar af frystitogurum.

 

Það þarf að auka veiðiheimildir af þorski, síld og flestum öðrum bolfiskstegundum.

Við getum auðveldlega aukið gjaldeyristekjur þjóðarinnar um 80 milljarða með því að veiða meira og nýta betur það sem veitt er úr hafinu. Leiguverð á aflaheimildum er ekki í neinum takti við fiskverð upp úr sjó eða afurðaverð á unnum fiski.

Að hluta til er því um að kenna að nú má geyma 33% af kvóta á milli ára. Því þarf að breyta strax. Fjöldi báta og skipa þarf nú að stoppa vegna hárrar leigu, sérstaklega á þorski, sem hefur skelfilegar afleiðingar fyrir fólk í sjávarútvegi og sjávarbyggðum.

 

Auðvitað þurfum við að veiða hval og við þurfum að virða mannréttindi íslenskra sjómanna. Kvótakerfið er ónýtt og óréttlátt og brýtur í bága við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og íslensku þjóðinni til skammar hvernig við stöndum að því.

 Skjótvirkasta aðgerðin til að vinna bug á því atvinnuleysi sem ógnar íslensku samfélagi er að auka sjávaraflann. Með því drögum við stórlega úr atvinnuleysi, eflum tekjumöguleika fólks og aukum bjartsýni. Það er engin áhætta tekin með því að auka veiðarnar enda þarf þjóðin núna á öllum möguleikum að halda til að efla útflutning sinn og gjaldeyristekjur. Við þurfum að virkja fallvötn og orku í iðrum jarðar, við þurfum að nýta alla okkar möguleika til að skapa atvinnu og gjaldeyristekjur  

Grétar Mar Jónsson þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.

( grein birt í Mbl. 11 febrúar. )


Framsóknarflokkurinn og kvótakerfið.

Enn bólar ekki á vilja til endurskoðunar í fiskveiðstjórninni af hálfu Framsóknarmanna,  að sjá má, þótt kerfið sé ein helsta rót vandans sem við er að fást í íslensku efnahagslífi.Ég hvet landsmenn til þess að fylgjast vel með því hvort flokkurinn ætlar að halda áfram á braut þess þjóðhagslega óhagkvæma kerfis í sjávarútvegi sem hefur verið við lýði með því að sópa arfleifðinni undir teppið í þessu efni.Íslendingar þurfa engan málamyndaleik þess efnis að setja ákvæði um fiskimiðin í stjórnarskrá  , því lögin um stjórn fiskveiða eru nægilega skýr, þess efnis að fiskimiðin kring um landið eru sameign þjóðarinnar. Hið frálsa framsal sem fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins tók þátt í því að setja inn í þau hin sömu lög, gekk gjörsamlega á skjön við fyrstu grein laganna með framkvæmd mála s,s, veði í fjármálastofnunum og öllu því braski og óheilbrigðu verðmyndun sjávarafurða sem þar átti sér stað. Ef stjórnsýslulög hefðu tekið gildi á þeim tíma er fyrrum formaður Framsóknarflokksins sat sem sjávarútvegsráðherra, hefði sá hinn sami að öllum líkindum verið vanhæfur til ákvarðanatöku um málið, vegna aðkomu að sjávarútvegsfyrirtæki.Öll sú þjóðhagslega verðmætasóun sem kvótakerfi sjávarútvegs hefur valdið með framsalsheimildaákvæði laganna, er gífurleg og nægir þar að nefna atvinnu og eignir einstaklinga sem og hins opinbera í sjávarbyggðum um land allt.Kerfið sjálft og markmið þess að byggja upp verðmesta stofninn með kvótasetningu, hefur heldur ekki tekist og menn ekki getað horfst í augu við.Siðast en ekki síst fengum við Íslendingar ábendingu um mannréttindabrot sökum þess að nýliðun er ekki fyrir hendi þ.e. mönnum er meinaður aðgangur að fiskveiðum.

Mál er að linni.

 

Grétar Mar Jónsson þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.

grein birt í Fréttablaðinu 24 janaúar.


Óska landsmönnum öllum Gleðilegra Jóla.

Góðir Sunnlendingar og landsmenn allir, til sjávar og sveita,

Gleðileg jól, farsælt komandi ár.

með þökk fyrir góð samskipti á árinu sem er að líða.

 

Grétar Mar Jónsson þingmaður Frjálslynda flokksins Suðurkjördæmi.


Nýjir tímar kalla á nýjar aðferðir og endurskoðun.

Það er ljóst að hin svokallaða einkavæðing í íslensku efnahagslífi hefur mistekist hrapallega, og reisa þarf eitt samfélag upp úr rústum þeirra mistaka.

 

Þar munum við þurfa að endurskoða þær aðferðir sem við hingað til hafa verið notaðar

 í öllu okkar kerfisfyrirkomulagi.

Við eigum að vera óhrædd við að fara nýjar leiðir hvort sem um er að ræða þróun lýðræðis til betrumbóta fyrir land og þjóð, eða breytingar á atvinnuvegum sem ekki hafa skilað nægilegum árangri og verður að líta á sem mistök sem læra þarf af.

  Landbúnaður og sjávarútvegur. 

Gömlu atvinnuvegakerfin sem eru við lýði hér á landi nú og háð eru kvöðum og höftum kerfisstýringar í formi kvóta, hafa þann alvarlega galla að aðkoma manna í atvinnugreinar þessar hefur verið gerð nær ómöguleg og nýlíðun því nær engin.

Kvótakerfi sjávarútvegs er sér kapítuli út af fyrir sig í þessu sambandi, þar sem frjálsa framsalið skekkti allar hugsanlega mögulegar markaðsforsendur, og setti efnahagskerfið á annan endann. 

Þar upphófst Matadorleikur sem þjóðin situr nú uppi með að þurfa að taka ábyrgð á ..

 

Ofurgróði af kvótasölu er meira og minna kapítuli af útrásarævintýrum þeim er þjóðin situr nú uppi með en gagnrýni á kvótakerfið hefur verið sett fram af Frjálslynda flokknum í áratug, þar sem við höfum bent á þá þjóðhagslegu verðmætasóun sem þar hefur verið á ferð, frá árangursleysi við uppbyggingu fiskistofna , brottkasts á Íslandsmiðum og fáránlegrar veðsetningar óveidds fiskjar úr sjó í fjármálafyrirtækjum.

 

Offjárfestingar með ofurskuldsetningu hefur einkennt skipulag bæði í landbúnaði og sjávarútvegi þar sem menn hafa einblýnt á stærðarhagkvæmni eingöngu án þess að sjá það einfalda atriði að fleiri menn að störfum í smærri einingum gætu skilað þjóðarbúinu  arði til langtíma litið.

 Arði sem kemur til sögu við skilagreiðslur í formi skatta í þjóðarbúið af atvinnu manna.Það er því ekki spurning hvort heldur hvenær stjórnvöld  munu þurfa að hefjast handa við endurskoðun og ég tel að það þurfi nýjan mannskap um borð í þjóðarskútuna til þess.  

Grétar Mar Jónsson þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.

(grein birt í Morgunblaðinu )    

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband