Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
17.8.2008 | 20:43
Hvar er árangurinn af fiskveiðistjórn ?
Núverandi kerfi hefur ekki byggt upp verðmesta stofninn þorskinn
sem kveður þó á um í lögum um fiskveiðisstjórn að skuli vera
markmið og tilgangur laganna.
Við höfum aldrei veitt minna af þorski á Íslandsmiðum þrátt fyrir það atriði að farið hafi verið 90% að tillögum ráðgjafar í því efni í tvo áratugi.
Niðurskurður þorskveiðiheimilda er uppskera ríkisstjórnarinnar ásamt mótvægisaðgerðum sem komið hafa til sögu og kosta fjármuni ,því ekki hefur tekist að byggja upp stofninn öll þessi ár.
Var ráðgjöfin " bull " ?
Menn eins og núverandi sjávarútvegsráðherra sem saka aðra þingmenn um bull ættu ef til vill að lita í eigin barm og skoða hvort sú aðferðafræði sem verið er að vinna eftir þarfnist kanski endurskoðunar við eftir áratuga árangursleysið.
Jafnframt væri ekki úr vegi að lita á alla þá hina fjölmörgu annmarka kerfis sjávarútvegs sem meðal annars mismunar sjómönnum aðgöngu að atvinnu við sjávarútveg en þar hafa íslensk stjórnvöld mátt vera skrifuð á spjöld sögunnar með mannréttindabrot á herðum frá alþjóðastofnunum.
Eru lögin kanski "bull " þar sem segir að fiskimiðin séu sameign, svo ekki sé minnst á að tryggja atvinnu og byggð í landinu ?
Hvorki traust atvinna né uppbygging byggða í landinu er það sem kvótakerfi sjávarútvegs hefur haft í för með sér, heldur nákvæmlega hið gagnstæða
eftir frjálst framsal var leitt í lög á Alþingi Íslendinga.Skuldsetning núverandi aðila í atvinnugreininni er ekkert öðruvísi en fyrir tíma þess kerfis sem nú er við lýði. Skuldum er þvi aðeins sópað undir teppið
með öðrum hætti en áður var, og birtist nú landsmönnum öllum, í
efnahagsumhverfi einnar þjóðar og gengi krónunnar
þar sem haldið er einu sinni enn verndarhendi yfir útflutningsafkomu
útgerðarfyrirtækja í hinu afar óhagkvæma skipulagi, fyrir land og þjóð.
Grétar Mar Jónsson þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.
(grein birt í Fréttablaðinu 16.ágúst)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2008 | 16:21
Fræðslu þarf að bæta.
Launþegar á vinnumarkaði greiða iðgjald í lífeyrissjóð og félagsgjöld til verkalýðsfélaga af vinnu sinni og öðlast með því móti ákveðin réttindi sem eru samningsatriði í kjarasamningum hvers félags fyrir sig.
Það er því mjög mikilvægt að launamenn séu vel upplýstir um sinn rétt, þegar að töku lífeyris kemur við aldursmörk eða þá ef viðkomandi þarf vegna heilsubrests að leita sinna réttinda fyrr. Almannatryggingakerfið , Tryggingastofnun, hefur einnig að geyma ýmis réttindi sem jafn nauðsynlegt er að menn fái vitneskju um frá hinu opinbera með reglubundnum hætti.Fólk veit ekki um sín réttindi.Því miður er misbrestur á því ,að, aldraðir og sjúkir hafi fengið upplýsingar um þau réttindi sem þeir eiga í lífeyrissjóðum sem og í almannatryggingakerfinu.
Ég tel að ASÍ þurfi að stuðla að því að verkalýðsfélög kynni félagsmönnum sín réttindi reglulega, og jafnframt þarf að kynna almannatryggingalöggjöfina og hvers konar breytingar mun betur en verið hefur.
Ýmsar stofnanir ganga að því sem gefnu að allir geti leitað upplýsinga í tölvutæku formi á netinu en þar gleymist að þar hafa ekki allir aðgang eða hafa nokkurn tímann notað tölvur.
Hér þarf annað hvort að gefa út meira fræðsluefni, eða nota miðla sem ná til alls almennings í landinu. Sjómenn geta til dæmis hafið töku lífeyris eftir 25 ár til sjós, við 60 ára aldur, þótt ellilífeyrir almannatrygginga taki ekki gildi fyrr en við 67 ára aldur en ekki er ég endilega viss um að allir sjómenn viti um það atriði.Forsenda þess að fólk fái notið réttinda sinna er vitneskja um þau hin sömu, og það er öllum til hagsbóta að hver og einn þekki vel sín réttindi sem þeir hafa áunnið sér.
Grétar Mar Jónsson þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.
(grein birt í 24 stundum, 13, águst.)
1.8.2008 | 13:48
Hvert stefna stjórnvöld í landinu ?
Aðgerðaleysi núverandi ríkistjórnarflokka Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er algjört, í einu mesta efnahagsöngþveiti sem um getur á síðari tímum þar sem hvoru tveggja léleg tök á efnahagsstjórn innanlands og ytri aðstæður leggjast á eitt til að kreppa að hag landsmanna. Ofskattlagning á einstaklinga á vinnumarkaði, hefur gert það að verkum að heimilin hafa í æ ríkara mæli skuldsett sig í formi neyslulána í bönkum, þar sem vextir og verðtrygging verða til þess að tímum sem þessum að fjármálastofnanir græða en hagur fólks rýrnar í réttu samhengi. Ríkisstjórn landsins hefur enn ekki boðað nokkurn þann hlut er létta kann hluta af þeim byrðum er fólk í landinu þarf nú um stundir þarf að bera.
Stjórnarþingmenn eru ekki sammála um stjórnarstefnunna þar sem einhver einn eða annar setur sig upp á móti ákvörðunum ríkisstjórnar í hinum margvíslegustu stjórnvaldsákvörðunum sem teknar hafa verið og talar þannig gegn stefnu ríkisstjórnarinnar. Evrópumálin eru gott dæmi um tilraun stjórnarflokka til þess að nota smjörklípuaðferð til þess að drepa á dreif hinu alvarlega ástandi í efnahagsmálum innanlands. Menn eru ekki sammála um Lögreglustjóraembættið á Keflavíkurflugvelli, frekar en stjórnvaldsaðgerðir við framkvæmd orkunýtingarstefnu þar sem farið er í felur með skólfustungu að byggingu álvera sem atvinnuskapandi verkefna. Viðskiptaráðherrann virðist til dæmis bæði með og á móti framkvæmdum í Helguvík, og sams konar viðhorf er að finna hjá iðnaðaráðherra gagnvart álveri á Bakka við Húsavík. Með öðrum orðum flokkarnir leika tveimur skjöldum í hverju málinu á fætur öðru þar sem hvor um sig reynir að slá sig sjálfan til riddara á torgi sýndarmennskunnar. Enga samstöðu stjórnvalda er því að finna þegar þjóðin má taka þungum búsifjum efnahagslega almenningur og fyrirtæki.
Sé það eitthvað eitt sem gæti lagt lóð á vogarskálar í því ástandi sem við blasir hér á landi er þar fyrst að nefna að auka veiðheimildir úr þorksstofninum hér við land. Í því felst engin áhætta heldur einungis ávinningur sökum þess að okkur er óhætt að veiða 200 þús tonn hér við land og yfir án áhættu í því sambandi það sýnir reynsla Norðmanna af ákvarðantöku úr Barentshafi. Jafnframt þarf að sjálfsögðu að hefjast handa við að endurskoða kerfi fiskveiðistjórnunar sem ekki hefur skilað þeim árangri er stefnt var að í áraraðir. Kerfi sem Íslendingar höfum nú fengið að vita að brjóti mannréttindi á þegnum landsins í sjómannastétt og er okkur algjör hneisa að við skulum ekki enn vera þess umkomnir að laga og bæta svo við getum talist þjóð á meðal þjóða. Núverandi ríkistjórnarflokkar þurfa að koma sér saman um hvað skal gera, aðgerðaleysi er óviðunandi.
Grétar Mar Jónsson þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.
(grein birt í Fréttablaðinu 31.7.)Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2008 | 13:10
Skortir heildaryfirsýn yfir heilbrigðismál ?
Það er næstum viðtekin venja að fjármagn skorti í rekstur heilbrigðisþjónustu hér á landi, þannig að sjaldan eða aldrei virðist vera hægt að greina fjárþörf fram í tímann á fjárlögum milli ára.Vissulega eru ákveðnir óvissuþættir s.s. varðandi bráðasjúkrahúsin í Reykjavík, en áætlanagerð af ýmsum toga hefur fleygt fram og það hlýtur að vera hægt að áætla nægilegt fjármagn í þau nauðsynlegu verkefni milli ára betur en gert hefur verið.Handahófskenndur sparnaður á ekki við á þessu sviði þjóðlífsins þótt sannarlega þurfi að vera til staðar aðhald í rekstri eins og alls staðar.Reglulegt innra eftirlit hins opinbera í úttektum á rekstri stofnanna á að duga.
Allir sitji við sama borð.
Að sjálfsögðu eiga landsmenn allir að njóta grunnþjónustu við heilbrigði, hvar sem þeir búa á landinu og allsendis ekki að þurfa að vera að berjast við ráðamenn varðandi sparnaðarhugmyndir í formi niðurskurðar. Gott aðgengi í heilsugæslu er forvörn og tryggja þarf þjónustu að þörfum hvarvetna á landinu. Sérfræðiþjónusta sem fólk utan af landi þarf að sækja til Reykjavíkur, þarf og verður að lúta kostnaðarþáttöku hins opinbera í formi ferðakostnaðar.
Formaður Styrktarfélags HSS benti á það nýlega að einungis 78 þúsund krónur á íbúa væri sú upphæð sem varið væri á fjárlögum til Suðurnesjamanna meðan tæplega tvöfalt hærri upphæð væri til staðar annars staðar á landinu. Séu tölur þessar réttar er þar á ferð augljós mismunun.
Skýrari skil.
Því miður virðast ekki nægilega skörp skil milli þess hvað flokkast sem kostnaður sveitarfélaga annars vegar og kostnaður ríkisins hins vegar þegar kemur að verkefnum sem hafa með heilbrigðisþjónustu að gera og falla innan ramma félagsmálaþjónustu sveitarfélaganna, s,s ýmissa verkefna í öldrunarþjónustu og meðferðarúrræðum ýmis konar sem varða börn og ungmenni. Skýrari mynd af fjárþörf til verkefna hvers konar þarf að vera fyrir hendi þar sem hægt er að greina kostnað milli málaflokka, öllum til hagsbóta.
Grétar Mar Jónsson alþingismaður Frjálslynda flokksins Suðurkjördæmi.
(grein birt í 24 stundir, 26.júli )
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2008 | 23:36
Hvað kostar framboðið til Öryggisráðsins Íslendinga ?
Grétar Mar Jónsson alþingismaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.
(grein birt í Fréttablaðinu 16 júli.)
Það er skammt síðan að rannsóknir leiddu það í ljós að við landið eru margir þorksstofnar en ekki einn eins og áður var talið, en það atriði höfðu sjómenn við landið uppgötvað áður en slíkt var leitt í ljós og staðfest.Þær takmörkuðu rannsóknaaðferðir sem Hafrannsóknastofnunin íslenska byggir á og er stofnstærðarmæling í svokölluðu togararalli er engan veginn nægilegur grundvöllur til mats á stofnstærðum fiskjar við landið. Við erum á rangri leið varðandi ákvarðanir um veiðar úr verðmesta stofninum þorski og það sem verra er við erum ekki að byggja hann upp með því að veiða nauðsynlegt magn úr stofninum árlega, sem þarf til grisjunar og endurnýjunar.Því til viðbótar höfum við einnig verið að veiða fæðuna frá þorski, loðnuna í of miklu magni sem raskar lífkeðjunni í hafinu.Þetta vita íslenskir sjómenn og þeir vita það líka að það er hægt að auka veiðar nú upp að 200 þúsund tonnum og yfir án þess að tekin sé áhætta um stofnstærð þorks.Sú vitneskja rammast ekki inn í flokkspólítiskar línur.
Tilgangur og markmið magnkvótakerfis fiskistofna enginn lengur.
Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og lagaumgjörð þess með tilliti til magnkvóta til vernar fiskistofnum hefur ekki gert það að verkum að viðhalda stofnstærðum þorsks, samkvæmt mælingum né heldur hefur það þjónað þeim þjóðhagslegu markmiðum sem lögin kveða á um að stuðla að atvinnu í byggðum landsins, þvert á móti unnið gegn þeim.Við það verður ekki unað lengur að endurskoðun fiskveiðikerfis Íslendinga verði slegið á frest, varðandi það árangursleysi sem blasir við. Stjórn Hafrannsóknarstofnunar á nú þegar að segja af sér og forstjóri stofnunarinnar að fá sér aðra vinnu, eins og tíðkast myndi við sams konar aðstæður í rekstri útgerðar í landinu. Skipstjórar sem ekki fiska þurfa að taka pokann sinn.
Reynslan úr Barentshafi.
Varaformaður okkar Frjálslyndra, Magnús Þór Hafsteinsson sem er fiskifræðingur sýndi okkur tölur um þorskveiði í Barentshafi þar sem Rússar höfðu pínt Norðmenn til þess að taka ákvarðanir um auknar veiðar á skjön við tillögur ICES alþjóðlega hafrannsóknaráðsins um veiðar. Þetta línurit sem birt var í norska fiskveiðitímaritinu Fiskaren, sýnir það og sannar að ákvarðanataka stjórnmálamanna á skjön við ráð vísindamanna, á rétt á sér og sú hin sama ákvörðun gerði það að verkum að stofninn og veiðar úr honum hefur í magni talið byggt upp stofninn, en ekki hamlað vexti hans. sjá línurit.
Grétar Mar Jónsson þingmaður Frjálslyndra í Suðurkjördæmi. ( grein birt í Mbl. þann 11.júli.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2008 | 00:46
Togararallið dugar ekki, til þess að mæla fiskgengd við landið.
Stærsta vandamál Hafrannsóknarstofnunnar er það hve mjög stofnuninn tekur mið af togararallinu eingöngu, á kostnað annara gerða veiðarfæra svo sem neta og línu. Eftir niðurskurð í þorskveiðiheimildum á síðasta ári, eftir að togararall taldi sig ekki finna nægilegt magn af smáfiski sem lagt var til grundvallar þeim niðurskurði, brá svo við að í kjölfarið hafa skyndilokanir svæða sett Islandsmet, þ.e. 100 skyndilokanir vegna of mikils magns af smáþorski í afla.
Nákvæmlega þetta atriði segir nægilega mikið til um það að togarararallið sýndi ekki fram á þá nýliðun sem þarna er í raun á ferð og segir okkur sjómönnum, að hrygning hafi heppnast 2-3 árum áður og óhætt sé að auka veiðar nú.
Sömu sögu er að segja um rækjurall síðasta sumars sem sýndi einnig fram á meiri þorsk á miðunum.
Þorskur á öllum miðum, sem þó má ekki veiða.
Sjaldan eða aldrei hefur orðið vart við eins mikinn þorsk allt í kring um landið á flóum og fjörðum og nú undanfarna tvo mánuði sem er sannarlega ánægjulegt en eigi að síður sorglegt að stjórnvöld skuli ekki eygja sýn á það atriði að rannsóknir kunni að vera vafa undirorpnar og í ljósi þess sé hægt að auka þorskveiðiheimildir nú þegar um að minnsta kosti 40 þúsund tonn á þessu fiskveiðiári.
Rækjurallið síðasta sumar sýndi meiri þorsk en áður á Íslandsmiðum. Þorskur á djupslóð þ.e 400-600 faðma dýpi á Hampiðjutorginu miðja vegu milli Íslands og Grænlands er eitthvað sem sjómenn hafa ekki átt að venjast en vart var við hann í fyrra og nú í febrúar þar sem hann var hann að ganga til Íslands að hrygna. Í netaralli síðasta árs hefur aldrei fundist meira af þorski, en ekki virtist tekið tillit til þess, samt sem áður.
Víð í Frjálslynda flokknum lögðum það til fyrir síðustu kosningar að okkur væri að ósekju óhætt að veiða 250 þúsund tonn af þorski næstu þrjú árin hér við land og það gildir enn.
Grétar Mar Jónsson alþingismaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.
3.7.2008 | 21:43
Bregðast þarf við nú þegar og lækka eldsneytisgjald.
2.7.2008 | 21:41
Mannréttindi ber að virða.
Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sendi frá sér álit
fyrir síðustu áramót þar sem fiskveiðistjórnarkerfið okkar
var sagt brjóta mannréttindi. Stjórnvöldum var veittur sex
mánaða frestur til að svara álitinu og gera grein fyrir
breytingum til úrbóta
Nú, þegar fresturinn er að renna út, hafa stjórnvöld enn ekki
sagt frá fyrirhuguðum aðgerðum sínum til að bæta fyrir þau
mannréttindabrot, sem framin hafa verið á sjómönnum og
verkafólki í sjávarbyggðum landsins, um árabil.
Úrskurður mannréttindanefndarinnar kveður skýrt á um það,
að úthlutun fiskveiðiheimilda til fárra útvaldra stangist á við
grundvallarreglur alþjóðasáttmála um borgaraleg réttindi.
Sem sagt, íslensk stjórnvöld hafa um árabil brotið
mannréttindi á þegnum sínum og alls ekki lagt hlustir við
varnaðarorðum Frjálslynda flokksins, sem hefur, allt frá
stofnun fyrir tíu árum, haldið því fram, að verið væri að brjóta
lög og traðka á mannréttindum.
Þessi mannréttindabrot hafa kollvarpað þjóðfélagsmyndinni,
lagt sjávarbyggðirnar í rúst, skilið fólk eftir á köldum klaka,
atvinnulaust með óseljanlegar eignir, fólk sem áður átti gott
líf, efnahagslega og félagslega.
Þau andlegu sár, sem þessi brot á mannréttindum skilja eftir
sig, eru ævarandi blettur á þeim stjórnarháttum sem
sjávarúvegsráðherrar Sjálfstæðisflokksins, með Framsókn og
nú Samfylkingu stunda, gagnvart stórum hópi landsmanna.
Svör og aðgerðir núverandi ríkisstjórnar við áliti
mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna eiga skilyrðislaust
að koma fyrir Alþingi nú þegar, og þar verður að koma skýrt
fram, að ætlunin sé að breyta núverandi
fiskveiðistjórnunarkerfi á þann veg, að ekki verði um frekari
mannréttindabrot að ræða.
Á sama tíma og íslensk stjórnvöld brjóta mannréttindi eru
þau að falast eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna,
ráðinu sem ætlað er að gæta þess að aðildarþjóðirnar standi
vörð um mannréttindi í heiminum. Hvílíkur tvískinnungur !
Að ætla sér að fá sæti á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og fremja á sama tíma mannréttindabrot
á þegnum sínum, er atriði sem engan veginn fer saman.