9.9.2009 | 10:00
Ekki rugga bátnum!
Nú stunda varðhundar sægreifanna það að telja sjálfum sér og öðrum trú um það að það verði að skapa stöðuleika í sjávarútvegi og því sé ástæðulaust og ekki rétt að breyta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.
Eða eins og Tryggi Herbertsson sagði í viðtali á Bylgjunni í gær telur hann ekki ástæðu til þess í dag eins og ástandið er í efnahagslíf þjóðarinnar að skapa óvissu í greininni.
Óvissan í greinin er í dag með þvílíkum eindæmum að ekki er hægt að bæta við hana og er það rétt hjá Tryggva. Óvissan er tilkomin vegna þess að menn sem hafa haft nýtingarrétt á auðlindinni hafa farið illa að ráðum sínum. Þeir hafa veðsett hana og notað síðan lánin til þyrlukaupa, hlutabréfakaupa, gjaldeyriskaupa,byggja sumarbústaði, kaupa bílaumboð og jeppa.
Kvóti sá sem sægreifarnir hafa nýtingarréttin yfir er yfirveðsettur í bönkum landsins og því væri það rétt að við þær aðstæður að ríkið innkalli allar veiðiheimildir.
Þá væri hægt að búa til kerfi þar sem allir sætu við sama borð. Kvóti yrði leigður með þeim hætti að allir þeir sem áhuga hafa og getu til að stunda sjósókn og útgerð sætu við sama borð, þegar kemur að nýtingu sameiginlegrar auðlindar. Útleiga færi þannig fram að borgað yrði um leið og allur afli yrði seldur á fiskmarkaði.
Til að komast út úr kreppunni og til að skapa samstöðu meðal þjóðarinnar um að vinna saman til framtíðar að uppbyggingu þarf að taka á spillingu og sérhagsmunum fárra sem gengur gegn velferð almennings.
Það er firra að það skapi óvissu að breyta kerfinu. Eina óvissan sem það gæti skapað væri að sægreifar gætu ekki lengur leikið sér með auðlindina með þeim hætti sem þeir hafa hingað til gert. Þeir hafa farið illa með þá ábyrgð sem þeim var treyst fyrir. Því fylgir ábyrgð að hafa fjöregg þjóðarinnar til afnota.
Þó svo að breytingar yrðu gerðar á kerfinu væri allt við það sama. Fiskurinn syndir um í sjónum. Menn fara á sjó í þeim bátum sem til eru í landinu. Fiskverkunarhúsin eru föst á grunninum. Kaupendur eru til staðar. Eina sem myndi breytast er að sægreifar hefðu ekki lengur þann möguleika að veðsetja landið og auðlindir þess til helvítis.
Kosturinn fyrir þjóðina og framtíð hennar er að ríkið hefði tekjur af leigu aflaheimilda sem kæmu strax í ríkissjóð.
Það sem olli efnahagshruninu var meðal annars núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi eins og Þorvaldur Gylfason hefur bent á. Það verður að breyta þessu kerfi til að mögulegt sé að skapa nýtt Ísland þar sem hagsmunir almennings er í fyrsta sæti.
Það er ástæðulaust að biðja menn um að rugga ekki bát sem þegar er sokkinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:44 | Facebook
Athugasemdir
Er nema von að ástandið í þjóðfélaginu sé eins og það er, þegar hagfræðingur eins og Tryggvi halda því fram að kvótakerfið í núverandi mynd sé hagkvæmt fyrir þjóðina,þrátt fyrir reynsluna af kerfinu eins og hún blasir við öllum réttsýnum mönnum. Landsbyggðin hefur verið í sárum eftir að kvótakerfið og einkum framsalið var tekið upp, útgerðin hefur aldrei í sögunni verið jafn skuldsett og í dag. Ens og þú bendir á, braskið og misnotkun á nýtingarréttinum verið slík, að stórum hópi útvegsmanna hefur ekki verið treystandi fyrir þessum forréttindum. Síðast en ekki síst hefur tilganginum með kvótakerfinu algjörlega brugðist, ef marka má útreikninga Hafró. Reyndar telja sjómenn að meira sé af fiski í sjónum, og það mikið af þorski að erfitt er að komast hjá því að veiða hann.
En hvað á að gera, í það minnsta á að loka kerfinu eins og það er í dag, banna framsal þannig að ef útgerð hættir skilar hún kvótanum inn til ríkisins(Auðlindasjóð). Þegar bætt verður við kvótann verði honum ekki útdeilt til núverandi handhafa, heldur afhentur Auðlindasjóði til útleigu. Spurning er hvort ekki yrði í lagi að leifa útgerðinni að leigja frá sér í þessu lokaða kerfi í samkeppni við Auðlindasjóð. Með tímanum yrði allur kvótinn komin inn í sjóðinn. Það mætti kalla þetta róttæka fyrningaleið.
Varðandi útleigu kvótans tek ég undir það að leigugjaldið yrði haldið eftir við sölu aflans. Fiskkaupandanum yrði skyldaður til að skila gjaldinu til Auðlindasjóðs.
Að lokum tek ég undir með þér að núverandi kerfi verði lagt niður.
Bjarni Líndal Gestsson, 9.9.2009 kl. 11:58
Mikið er ég feginn að hafa menn eins og Grétar Mar sem veit hvað hann er að tala um. Verst að Grétar er ekki lengur á þingi.
Finnur Bárðarson, 9.9.2009 kl. 17:16
Ég heyrði þetta líka... ég hugsaði upphátt: F*cking mafíósar :)
DoctorE (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 17:24
Góður pistill hjá þér Grétar og hvert einasta orð sannleikur
Sjávarútvegsstefnan er bara samnefnari alls þess sukks sem fengið hefur að grassera í þjóðfélaginu....á öllum sviðum !!!
Nú bíð ég bara eftir að byltingin brjótist út.....og ég hef enga trú á að eitthvert pottaglamur verði í gangi á Austurvelli, þessi bylting verður blóðug því heiftin er orðin slík hjá fólki !!!
Og ég læt ekki mitt eftir liggja
Anna Grétarsdóttir (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 18:17
Mjög góðar ábendingar hjá þér eins og oft áður,ég þekki mann fæddan og uppalin
í sjávarþorpi úti á landi,stundaði þar sjómennsku sinn starfsaldur,var báts og kvótaeigandi,
seldi bát og kvóta,þá nýfluttur með sitt lögheimili til Reykjavíkur náði því að verða
einn hæsti skattgreiðandi Reykjavíkur það árið með yfir fjörutíu miljónir til borgarinnar
sem hefði verið góð búbót fyrir hanns æsku og uppeldissveitafélag .Er þetta eðlilegt?
mér fynnst ekki.
Helgi Sæmundsson (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 19:06
Þetta er nú að verða frekar þreyttur pistill hjá þér Grétar Mar. Þú ert búinn að vera með þennan sama söng í áraraðir.
Er ekki nær að láta þá sem hafa keypt kvóta, vinna sig út úr skuldunum, frekar heldur en að láta bankana leysa kvótann til sín? Hafa bankarnir sínt svo mikil tilþrif þegar kemur að rekstri fyrirtækja að þeim sé treystandi?
Hvað með hið opinbera? Eru ekki líkur á að ef fara ætti að útdeila kvótanum pólitískt yrði fyrst fjandinn laus? Tala ekki um þegar flokkar á borð við Samfylkinguna eru við stjórnvölin, sem virðast lítið annað geta en að misnota kerfið. Ráðandi vini og venslamenn í öll störf sem í boði eru, og helst ólöglega.
Það er líka umhugsunarefni að heyra hvern "spekúlantinn" á fætur öðrum segja að allar útgerðir í landinu séu yfirveðsettar og á hausnum. Hvaða upplýsingar hefur Grétar Mar um það? Ekki eru þessi fyrirtæki skráð í kauphöllinni? Ekki eru fyrirtækin búin að skila inn sýnum ársreikningum?
Ef fara á út í að innkalla öll fyrirtæki sem eru illa stödd og lifa á þeim gæðum sem landið og miðin bjóða upp á, er líklegt að hér yrði ein allsherjar ríkisútgerð. Bændur, leigubílstjórar, ferðaþjónusta o.s.frv. þessir aðilar lifa meira eða minna allir á takmörkuðum gæðum eða auðlindum.
Útgerðin hefur lent í miklum áföllum síðustu árin. Niðurskurður í ýmsum aflaheimildum. Sýking í stofnum. Misvitrir opinberir embættismenn sem hafa útdeilt t.d. makrílkvóta óskynsamlega, sem hefur kostað okkur miklar fjárhæðir. Engu að síður er aflaverðmæti með því mesta sem nokkurn tíma hefur sést hér á landi.
Innköllun veiðiheimilda og pólitísk útdeilding myndu þýða að það væri jólahátíðin sjálf árið um kring hjá embættismönnum og stjórnmálaflokkum þessa lands. Það hefur nú engu að síður sýnt sig, að þessir aðilar hafa nú ekki alltaf sýnt mikla takta í því sem þeim hefur verið treyst fyrir.
joi (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 21:38
Þetta er rétt hjá þér Grétar. Það er líka á hreinu að um leið og að eignarhald þjóðarinnar á kvótanum verður tryggt og farið verður að innheimta eðlilegt gjald fyrir afnotin þá mun LÍÚ um leið fara að gagnrýna vitleysisganginn í Hafró. Þegar það skeður er loksins von til þess að umræðan um fiskveiðistjórnunina fari að færast í vitlegt horf.
L.i.ú., 9.9.2009 kl. 21:55
Góður pistill hjá þér Grétar.
Jón Bjarnason er ágætis maður en það er leitun að manni af landsbyggðinni sem hefur jafn lítið vit á sjávarútvegi og hann. Það var slæmt að missa þig af þingi.
Sigurður Þórðarson, 10.9.2009 kl. 09:08
Takk fyrir ykkar innlegg. Ég get lofað ykkur því að ég mun halda áfram að viðra mínar skoðarnir um sjávarútvegsmál og allt annað sem varðar hag þjóðarinnar. Því ég vil að heildarhagsmunir séu hafðir að leiðarljósi en ekki sérhagsmunir.
Við þurfum að halda þessari umræðu áfram og leyfa ekki LÍÚ klíkunni að sjórna henni.
Grétar Mar Jónsson, 10.9.2009 kl. 09:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.