Tilboð í aflaheimildir frá Samtökum íslenskra fiskimanna.

Samtök íslenskra fiskimanna (SÍF) afhentu Jóni Bjarnasyni sjávarútvegsráðherra tilboð samtakana um leigu á aflaheimildum frá ríkinu föstudaginn 11.nóvember 2011.

 

Í tilboðinu kom fram að SÍF óskar eftir að leigja af ríkinu 10.000 tonn af þorski og borga 100 kr. í leigu fyrir hver kíló, 5. 000 tonn af ýsu og borgar 75 kr. í leigu fyrir hvert kíló og 5.000 tonn af ufsa og borga í leigu 50 kr. fyrir hvert kíló.

 

Samtals myndi þetta leiða til þess að ríkið fengi 1.6 milljarð í leigutekjur á ári fyrir þessar aflaheimildir. Fyrir þessa upphæð væri m.a. hægt að koma í veg fyrir lokun líknadeilda og frekari niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Ef allar veiðiheimildir í þorski, ýsu og ufsa væru leigðar út fyrir sömu upphæð á hvert kíló gæti það skilað ríkinu um 25 milljörðum í ríkiskassann.

 

Nú bíða samtökin eftir svari frá stjórnvöldum varðandi tilboðið og þá kemur í ljós hvort það eru heildahagsmunir sem skipta stjórnvöld máli eða það að verja sérhagsmuni fárra.


Veiðum meiri þorsk

Ríkisstjórn sem á hátíðardögum eða þegar mikið liggur við kennir sig við jafnaðarmennsku og félagshyggju en lætur sig ekki varða að brotin séu mannréttindi á almenningi í landinu ætti að skammast sín. Ríkisstjórnin hefur enn ekki brugðist við áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 12. desember 2007.

Ríkistjórnin virðist ekki hafa kjark eða getu til að takast á við sérhagsmunaaðila sem virðast komast upp með að stjórna öllu því sem þeir vilja stjórna. Nú um stundir virðast sérhagsmunasamtök LÍÚ fá að ráða því hvort áfram verði leyfð mannréttindabrot hér á landi með vitund og vilja stjórnvalda. Það er kominn tími til að stoppa af LÍÚ-klíkuna innan SA sem hefur hingað til haft alltof mikil völd. Fólkið í landinu kaus ekki forystu SA og LÍÚ til að stjórna landinu, það kaus flokka sem lofuðu að standa vörð um velferðina og uppræta spillingu í íslensku samfélagi. Það kaus flokka sem lofuðu að breyta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.

Það ríkir neyðarástand í þjóðfélaginu sem núverandi kvótakerfi átti stóran þátt í að skapa. Kerfið er einnig að koma í veg fyrir það að menn sem stunda vinnu í tengslum við sjávarútveg geti lifað mannsæmandi lífi. Kerfið kemur í veg fyrir atvinnuuppbyggingu í greininni sem full þörf er á í því atvinnuleysi sem nú er. Það kemur einnig í veg fyrir auknar þjóðartekjur sem við þurfum svo sannarlega á að halda til að geta haldið uppi ásættanlegri velferðarþjónustu.

Forsenda uppbyggingar hér á landi er að gerðar verði breytingar á núverandi kvótakerfi. Ekkert virðist vera að gerast í því og ætti almenningur í landinu að spyrja sig af hverju ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafi enn ekki staðið við loforð sitt í stjórnarsáttmála að hefja fyrningu aflaheimilda í september 2009. Hvaða hagsmuni er ríkisstjórnin að verja, eru það sérhagsmunir fárra á kostnað velferðar heildarinnar?
Það vekur einnig furðu að frumvarp Jóns Bjarnasonar um aukinn kvóta sem leigja átti út frá ríkinu hafi verið stoppað af ríkisstjórninni í haust. Frumvarpið gerði ráð fyrir að bæta við kvóta sem yrði leigður út frá ríkinu. Maður spyr sig hvort frumvarpið hafi stoppað í ríkisstjórn vegna þess að Steingrímur sem er og hefur verið kvótasinni og Samfylkingar-ráðherrarnir hafi ekki þorað að styggja LÍÚ-klíkuna.

Það er full ástæða til að auka við kvótann og nota aukninguna til að brjóta upp kvótakerfið. Ástandið á fiskislóðum hringinn í kringum landið er með ólíkindum og þar er allt fullt af þroski. Hafró hefur mælt meiri þorsk í togararallinu í ár en undanfarin ár þrátt fyrir að litlu leyti sé togað á grunnslóð og ekkert sé togað inn á fjörðum eða út að 10 mílum frá landi, víðast hvar.

Það eru margir möguleikar sem þjóðin á til að komast upp úr kreppunni og eitt af því er að auka kvótann. Það kostar ekkert því nú þegar er til skipafloti og fólk með þekkingu og vilja til að nýta auðlindir þjóðarinnar með skynsamlegum hætti, landi og þjóð til góðs.

(Fréttablaðið 6. maí. 2011)


Er mesti glæpur íslandssögunnar í uppsiglingu?

Nú er í uppsiglingu mesti glæpur íslandssögunnar gagnvart almenningi í landinu. Ríkistjórnin virðist ætla að láta undan þrýstingi frá LÍÚ klíkunni og festa í sessi til fimmtán ára núverandi kvótakerfi.

 

Ríkisstjórn Íslands hefur að því virðist látið undan þrýstingi frá LÍÚ því nú hefur verið afráðið að fara hina svokölluðu pottaleið. Þetta þýðir að áfram verður brotin mannréttindi á almenningi í landinu.

 

Vanþekking stjórnmálamanna á fiskveiðistjórnunarkerfinu er algjört ef þeir telja að pottaleiðin frí stjórnvöld af því að brjóta mannréttindi. Þeir verða að átta sig á því að það eru núverandi handhafar kvótans sem nýta og koma til með að nýta bróðurpartinn af pottunum. Þeir gera það nú þegar úr pottum sem áttu að auka frelsi og nýliðun í greininni.  Þeir nota og nýta bróðurpartinn  af þeim veiðiheimildum sem eru í pottum tengdum línuívilnun, byggðarkvóta, rækjukvóta, strandveiðikvóta og skötuselskvóta.

 

Það var slæmt að setja gjafakvótann á 1984. Það var mjög slæmt að það voru vinstri menn settu á frjálsa framsalið sem tók gildi 1991. En þessi gjörningur er verri af því leiti að þessi lög eiga að gilda til 15-20 ára. Því á nú að setja lög sem brjóta gegn stjórnarskránni og leiða til áfram haldandi mannréttindabrota.  

 

Þetta er versta slys íslandssögunnar í lagagerð ef af verður. Hafa einhvern tíma verið ástæða til að grípa til vopna hér á landi þá er það núna.


Hitaveita Suðunesja

Það voru mikil mistök að mínu áliti þegar sveitarfélög á Suðurnesjum tóku þá ákvörðun að selja hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja.  Þessi gjörningur hefur haft ýmsar afleiðingar fyrir íbúa Sandgerðisbæjar og mun hafa um ókomna framtíð.

Upphaf þessara mistaka var þegar fyrrverandi fjármálaráðherra Árni Mathiesen ákvað að selja 15% hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja og sveitarfélögin á Suðurnesjum tóku þá ákvörðun að kaupa ekki hlut ríkisins í hitaveitunni, sem þau hefðu að mínu mati átt að gera. Afleiðingar þessa er að í dag borga íbúar Sandgerðisbæjar hærra verð fyrir heita og kalda vatnið og fyrir rafmagnið. Ég tel að hagsmunum íbúa Sandgerðisbæjar hefði verið betur borgið ef bæjarfélagið hefði áfram átt sinn hlut í hitaveitunni sem í dag er rekið af einkaaðilum sem eðli málsins samkvæmt, hafa það eitt í huga að hámarka hagnað sinn.

Ég sagði fyrir fjórum árum að íbúar Sandgerðisbæjar myndu vera búnir að borga hagnaðinn af sölunni sem var ca. 2.5 milljarðar til baka á 10-15 árum með hærri þjónustugjöldum frá hitaveitunni og ég tel enn að svo verði.

Það sem er sorglegast við sölu bæjarfélagsins á sínum hluta í Hitaveitu Suðurnesja er að Sandgerðisbær fékk 2,4 milljarða fyrir sinn hlut sem virðast hafa gufað upp og ég spyr hvað varð um milljarðana?

Undirritaður veit að Fasteign ehf. fékk hluta af þessum pening að láni frá bæjarfélaginu til að byggja grunnskólann. Fasteign ehf. hefur að vísu greitt þetta lán til baka en það sem er umhugsunarvert er að bæjarfélagið láni félagi í eigin eigu, að hluta, peninga til að byggja skóla sem það þarf síðan að leigja af sama félagi.  Að teknu tilliti til fjárhagsstöðu sveitarfélagsins á þeim tíma sem um ræðir hefði bæjarfélagið getað byggt skólann sjálft og átt hann skuldlausan í dag. Staðreyndin í dag er þannig að bæjarfélagið leigir grunnskólann sem það fjármagnið af félagi sem það á hlut í, sem trúlega er gjaldþrota.

Fyrrverandi meirihluti ber ábyrgð á þessum gjörningi og það þarf að kalla eftir því að þeir sem bera ábyrgðina axli hana. Einnig er nauðsynlegt að bæjarbúar fái að vita hvað varð um ca. 1.4 milljarða sem virðast vera horfnir.

Með bestu kveðju til íbúa Sandgerðisbæjar,
Grétar Mar Jónsson.

(Grein þess birtis á 245.is 25.02.2011)


Fasteignar ruglið.

Ein stærstu mistök sem Sandgerðisbær hefur gert í gegnum árin var að selja eigur bæjarfélagins til Fasteignar ehf.. Afleiðingar þessa er að upp hefur hlaðist mikill kostnaður fyrir sveitarfélagið.  Einnig leiðir aðkoma sveitarfélagins að Fasteign ehf. til þess að þegar leigusamningur bæjarins við félagið rennur út eftir 20 ár mun sveitarfélagið ekki eiga skólabyggingarnar, félagsheimilið, sundlaugina eða íþróttahúsið.

Nú er rætt um að inn leysa þessar eignir aftur frá Fasteign ehf. til sveitarfélagsins fyrir  ca. 2,5 milljarða. Staðan er hins vegar sú að Sandgerðisbær hefur ekki burði til þess í daga miðað við fjárhagsstöðu bæjarfélagsins. Því tel ég að það væri betra fyrir Sandgerðisbæ að Fasteign ehf. yrði sett í gjaldþrot. Þá hefði  Sandgerðisbær möguleika á að semja við skiptastjóra um yfirtöku á eignum Fasteignar ehf. í bæjarfélaginu. Ég tel að þetta myndi leiða til þess að við gætum fengið eignirnar til baka á hagstæðari kjörum en þeim sem nú er rætt um.

Það voru mikil átök í sveitarfélögum hringinn í kringum landið þegar ákveðið var að stofna Fasteign ehf. og sitt sýndist hverjum. Það hefur komið á daginn að þeir sem voru á móti því að selja eignir sveitafélagins inn í Fasteign ehf. höfðu rétt fyrir sér. Maður getur spurt sig hvaða einstaklingur vilji selja svo til skuldlaust hús sitt til að losa um peninga til þess eins að eyða í dekur og borga síðan fasteignafélagi og banka leigu á sömu eign í tuttugu ár?

Það eina sem aðkoma sveitarfélaganna að Fasteign ehf. leiddi til var að losað var um fé sem síðan var notað af bæjarstjórnarmönnum til að reisa sér minnisvarða á kostnað bæjarbúa án þess að þeir hefðu í huga framtíðar hagsmuni þeirra. Fasteignar ævintýrið í okkar bæjarfélagi hefur leitt til þess að við erum á mörkum þess að missa fjárhagslegt sjálfstæði okkar. Sandgerðisbær er í dag sennilega eitt af skuldsettustu sveitarfélögum landsins.

Við höfum alla burði til að vera stöndugt og vel rekið sveitarfélag því Sandgerðisbær fær ca. 300. milljónir í tekjur frá flugstöðinni og öðrum byggingum á sama svæði. Þess vegna er mikilvægt að það verði kafað ofan í það hvers vegna skuldastaða sveitarfélagsins er eins slæm og raun ber vitni.

Grein birt á 245.is 19-2-2011. 


Sá yðar sem syndlaus er......

Samkvæmt fréttum í gær hafnaði stjórn Byggðastofnunar því að Lotna ehf. fengi að kaup fiskvinnslufyrirtækið Eyrarodda á Flateyri. Anna Kristín Gunnarsdóttir, stjórnarformaður Byggðastofnunar, segir að ástæða þess sé viðskiptasaga eigenda Lotnu.   

Byggðarstofnun hafnar því að lána fyrirtæki sem vill koma atvinnulífinu á Flateyri í gang á ný vegna viðskiptasögu manna sem hafa það eitt til sakar unnið að hafa þurft að byggja rekstur fyrirtækja sinna á því að vera leiguliðar kvótagreifanna í gegnum tíðina. Það hefur leitt til þess að þeir hafa lent í ógöngum með útgerð sína trekk í trekk vegna þess að þeir hafa þurft að leiga veiðiheimildir dýrum dómi af handhöfum gjafakvótans.  

Þeirra vandamál er vandamál allra þeirra sem hafa vilja til að stunda útgerð hér á landi og hafa ekki notið þeirrar blessunar að hafa fengið gjafakvóta á sínum tíma. Þetta sýnir líka að mannréttindi þessar manna eru brotin þar sem þeir hafa ekki fengið veiðiheimildir til jafns við aðra í greininni. Menn eins og Kristján sem er fiskinn og farsæll skipstjóri hefur þurft að búa við það að geta ekki með mannsæmandi hætti notað og nýtt þekkingu sína vegna fiskveiðistjórnunarkerfis sem er arfavitlaust.  Að fyrirtækinu standa duglegir menn sem hafa verið að reyna að ná fótfestu í útgerð og hafa notað til þess aðferðir sem eru landlægar. Það vita allir sem koma að útgerð að þar á sér stað brottkast, framhjálandanir, svindl með ísprufur, nýtingarstuðul,  heimavigtun og úrtaksvigtun.  

Byggðastofnun og bankarnir hafa verið að afskrifa skuldir af mönnum sem staðnir hafa verið af kvótasvindli og lent í gjaldþrotum í gegnum tíðina. Það væri því ráð að gerð yrði stjórnsýsluúttekt á Byggðarstofnun til að almenningur fái upplýsingar um það hverjum hefur verið lánað og að þeir sem hafa fengið lán hingað til séu allir með hreinan skjöld þegar kemur að gjaldþrotum og kvótasvindli ef það er viðmið sem Byggðarstofnun hefur notað í gegnum tíðina vegna lánafyrirgreiðslu.

Ég skora á stjórn Byggðarstofnunar að endurskoða ákvörðun sína um lánafyrirgreiðslu til Lotnu ehf. því þessir menn eru fórnalömb kerfis sem þarf að breyta.  

Með því að Lotna ehf. fái byggðarkvóta, geri út á standveiðar og breytingar verið gerðar á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi þannig að mannréttindi séu virt eru allar líkur á því að þeir geti spjarað sig og atvinnulíf á Flateyri nái að verða til hagsældar fyrir íbúa byggðarlagsins.  


Hverjir keyptu veiðiheimildir?

 Að gefnu tilefni birti ég hér aftur gamla bloggfærslu.

Í umræðunni um fiskveiðistjórnunarkerfið og fyrningu er talað um að ekki megi taka það af útgerðarmönnum sem þeir hafi keypt.   

Þetta er rangt, því það eru engar stórútgerðir sem hafa þurft að kaupa allar sínar veiðiheimildir eftir 1991 þegar það myndaðist verð á veiðiheimildum. 

Flestar stórútgerðir í landinu eru enn með sömu kennitölu og þær höfðu við upphaf kvótakerfisins og því byggja þau á nýtingarrétti sem þau borguðu ekki neitt fyrir.  

Sum breyttu úr h.f. í e.h.f. og sameinuðust öðrum fyrirtækjum og eru því nú allt upp í níu kennitölur komnar inn í sum fyrirtækin. 

Það er því rangt eins og LÍÚ hefur haldið fram að útgerðarfyrirtæki sem starfa í dag hafi keypt aflaheimildir, í 90% tilfella.  

Ef farið er hringinn í kringum landið sést að það er enn sömu fyrirtæki og sama fólkið sem er enn í útgerð sem byggir á þeim gjafakvóta sem þau  fengu í upphafi.  

Hér verða flest þessara fyrirtækja talin upp. 

Í Vestmannaeyjum eru það; Vinnslustöðin, Ísfélagið, Glófaxaútgerðin, Bergur-Hugin útgerðin, Dala-Rafns útgerðin, útgerðin á Frá, Bergi, Hugin, Þórunni Sveinsdóttur og Bylgjunni, ásamt fleiri útgerðum í Eyjum.
Á Hornafirði sameinuðust Skinney og Þinganes og tóku yfir Kaupfélags útgerðina.
Það eru nánast  engar veiðiheimilir á Djúpavogi, Breiðdalsvík, Stöðvarfirði og Reyðarfirði Það eru sömu aðilar í útgerð á Fáskrúðsfirði og voru og á Eskifirði þar sem  Eskja e.h.f.  er og er hún rekin af afkomendum Alla ríka.
Það eru sömu  eigendur að Síldarvinnslunni á Norðfirði en þar eiga reyndar Samherjar orðið 30-40% hlut.
Á Þórshöfn er Ísfélagið komið inn í útgerðina með heimamönnum og Grandi er komin inn í útgerð með heimamönnum á Vopnafirði.
Á Siglufirði er Þormóður Rammi og hefur hann sameinast útgerð sem var á Ólafsfirði. Samherji og Brim eru á Akureyri.
Á Sauðarkrók eru sami aðili í útgerð og verið hefur og er það Kaupfélagið.
Á Grenivík er Gjögur.
Gunnvör á Ísafirði hefur sameinast nokkrum öðrum útgerðum þar.
Oddi er á Patreksfirði.
Á Snæfellsnesi er og hafa verið meðal annars útgerð Kristjáns Guðmundsonar, Hraðfrystihús Hellisands, Steinunnar útgerðin í Ólafsvík, Rakel Ólsen í Stykkishólmi, Guðmundur Runólfsson í Grundarfirði.
Í Reykjavík eru Grandi og Ögurvík.
Stálfrúin í Hafnarfirði.
Nesfiskur í Garði.
Happasæls, Arnars útgerðin og Saltver  í Keflavík. 
Þorbjörninn og Vísir í Grindavík.
Í Þorlákshöfn er útgerðir Einars Sigurðssonar og Hannesar Sigurðssonar. 

Öll þessi fyrirtæki hafa verið til frá því fyrir daga kvótakerfisins og hafa byggt starfsemi sína upp á gjafakvóta.


Skandall

Nú heldur forseti F.F.S.Í.  því fram að kjarasamningar sjómanna séu í uppnámi vegna óvissu um fiskveiðistjórnunarkerfið. Þetta eru fáránleg rök hjá forsetanum vegna þess að staðreyndin er sú að undanfarin 50 ár hefur aldrei hefur verið hægt að gera kjarasamninga á milli sjómanna og útgerða. Við sjómenn höfum oftast þurft að sætta okkur við að vinna eftir kjarasamningum sem settir hafa verið á okkur með lögum frá Alþingi.

 

Þó hafa verið gerið kjarasamningar á milli útgerða og sjómanna í tvö síðustu skipti. Þeir samningar urðu til þess að laun sjómanna lækkuðu.

 

Það er sorglegt til þess að vita að forsvarmenn sjómanna séu komnir í grátkór L.Í.Ú.. Það væri betra fyrir sjómenn þessa lands að þeir beittu sér fyrir því að allur fiskur færi á fiskmarkað því þá fengist fullt verð fyrir fiskinn en ekki hálfvirði eins og er í dag. Það að allur fiskur færi á fiskmarkað myndi leiða til launahækkunar til handa sjómönnum og aukningar á skatttekjum til ríkis og bæja.

 

Sjómannasamtökin eiga að sjá sóma sinn í að setja fram kröfu um að mannréttindi séu virt gagnvart íslenskum sjómönnum og berjast fyrir því að  núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi verði afnumið.

Austurvöllur

Í gærkvöldi var ég ásamt fjölda fólks á Austurvelli til að mótmæla því sem ekki hefur verið gert til að koma til móts við fólkið í landinu. Ég sá þar og talaði við  fólk, meðal annars, frá Suðurnesjum sem er að missa allt sitt vegna þess að það hefur misst vinnuna. Það fær ekki vinnu þó svo að það hafi starfsþrek og vilja til að vinna.

 

Ég og margir aðrir sem voru á Austurvelli vorum líka að mótmæla því að ekkert virðist eiga að gera til að breyta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.

 

Það að ekkert eigi að gera til að breyta kerfinu kom líka berlega í ljós í stefnuræðu forsætisráðherra sem ég hlustaði á eftir að ég kom heim af Austurvelli, sem var hörmuleg.

 

Í sambandi við breytingar á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi sem hún var búin að lofa að breyta talaði hún bara um að það þyrfti að setja á veiðigjald en áfram yrði stuðst við óbreytt kerfi, en almenningi er lofað að sett verði inn í stjórnarskrá að við, fólkið í landinu eigum auðlindana.

 

Forsætisráðherra og stjórnvöld virðist vera búin að taka ákvörðun um að farin verði svokölluð samningaleið(svikaleið) í tengslum við boðaðar breytingar á fiskveiðastjórnunarkerfinu, það á því að viðhalda óbreyttu kerfi sem felur í sér mannréttindabrot á íslenskum sjómönnum og almenningur fær ekki arð af nýtingarréttinum.   

 

Ef samningaleiðin verður sett í lög er full ástæða til að draga þá ráðherra og þingmenn sem það gera fyrir Landsdóm því það væri ekkert annað en landráð.

 

Það þarf að breyta núverandi fiskveiðastjórnunarkerfi sem er undirrót þeirrar spillingar og þess ástands sem fólkið í landinu er að mótmæla á Austurvelli.

 

Almenningur er líka að mótmæla því óréttlæti sem fellst í því að skornar eru niður milljarða skuldir af útgerðarfyrirtækjum sem hafa verið að fjárfesta í óskildum rekstri undanfarin ár og átt stóran þátt í að búa til bóluna sem sprakk framan í andlit almennings í landinu sem nú er ætlað að borga fyrir spillinguna og óráðsíuna sem viðgengis hefur í greininni án þess að nokkuð sé gert til að koma til móts við skuldavanda hans.

 

Almenningur er þegar búin að taka á sig nægar byrðar og þolir ekki meira. Óréttlætið sem birtist í þessum gjörningi bankanna (m.a. Landsbankans/banka landsmanna) í þessu sambandi var dropinn sem fyllti mælinn og það verða stjórnvöld að gera sér grein fyrir.

 

Mannréttindi allra þegna landsins er forsenda þess að Nýtt Ísland geti orðið að veruleika.


Aðgerðir strax

Það eru hörmuleg vinnubrögð að Landsbankinn skuli fella niður skuldir af útgerðum á sama tíma og ekkert er hægt að gera fyrir fólkið í landinu. Í gær var fjallað um það í Kastljósi að bankinn hafi fellt niður 2.6  milljarða skuld af smábátaútgerð sem er í eigu Skinney-Þinganes. Útgerðar sem á sínum tíma fékk gjafakvóta frá ráðherra sem jafnframt var hluthafi í fyrirtækinu.  

Fjölskyldurnar í landinu eru að missa heimili sín og ekkert virðist vera hægt að gera fyrir þær. Stjórnin sem nú er við völd og kallar sig velferðarstjórn situr með hendur í skauti og horfir upp á gjaldþrot heimila fjölga frá degi til dags án þess að bregðast við með.  Þessu verður að linna.

Frjálslyndi flokkurinn lagði til fyrir síðustu þingkosningar að vísitöluhækkun lána yrði ekki hærri en 5% á ári og það sem væri fram yfir það færi inn á biðreikning og yrði afskrifað ef greiðslugeta yrði ekki fyrir hendi hjá fjölskyldunum í landinu.

Það verður að verja heimilin í landinu með einum eða öðrum hætti og það verður að gerast strax.

Ályktun frá stjórn Frjálslynda flokksins

Stjórn Frjálslynda flokksins gerir þá kröfu að þing verði rofið og boðað til kosninga eins fljótt og verða má. Þetta er nauðsynlegt vegna þess að:

Niðurstöður atkvæðagreiðslu gærdagsins varðandi Landsdóm sýndu og sönnuðu að núverandi þingmenn eru ekki í stakk búnir til að takast á við það verkefni að skapa sátt við almenning í landinu.

Núverandi Alþingi sýndi og sannaði að pólitískar flokkslínur skipta meira máli en hagsmunir almennings og að enginn vilji er til að taka á pólitískri samspillingu.

Núverandi Alþingi sýndi engan vilja til þessa að gera upp fortíðina og draga til ábyrgðar þá sem raunverulega hafa valdið þjóðinni ómældu tjóni sem almenningur ber nú skaðann af með skertum lífskjörum um ókomna framtíð.

Landeyjahöfn

Þessi grein var birt í Eyjafréttum á "góðum" stað þegar Landeyjahöfn var vígð. Við undirritaðir vorum kallaðir svarsýnismenn og að höfnin væri hönnuð af okkar færustu sérfræðingum.

Landeyjahöfn

 

Það er full ástæða til að óska íbúum Vestamannaeyja  og öðrum landsmönnum til hamingju með að búið er að opna Landeyjahöfn. Þetta er mikil samgöngubót fyrir íbúa Vestmannaeyja sem gæti gefið mikla möguleika þegar til framtíðar er litið. Höfnin mun geta leitt til eflingar í ferðamannaiðnaði í eyjunum. Samstarf sveitarfélaga á svæðinu gæti aukist á öllum sviðum hvað varðar mennta-, heilbrigðis-, og atvinnumálum.

 

En það gæti verið galli á gjöf Njarðar sem við reyndir skipstjórnarmenn höfum haft og höfum enn miklar áhyggjur af og það er að ekki verði hægt að nota Landeyjahöfn fyrir Herjólf þegar tíðarfar er slæmt.

 

Það er rif 300 metra fyrir utan innsiglinguna sem brýtur á í 4. metra ölduhæð og oft getur brotið á þessu rifi þegar vindur er að ganga í norðan og norðaustan áttir. Við höfum talið að varnagarðarnir hefðu þurft að ná út fyrir rifið til að koma í veg fyrir grunnbrot.  Þessa skoðun byggjum við á reynslu okkar sem skipstjórnarmenn úr Sandgerði og Grindavík þar sem oft brýtur undir norðanáttum og þá getur verið varhugavert að sigla á grunnsvæðum með suðurströndinni.

 

Vegna þessa teljum við að það sé nauðsynlegt að Þorlákshöfn verði varahöfn fyrir siglingar Herjólfs, í að minnsta kosti eitt ár, þar til ljóst verður hvernig samgöngur ganga til Landeyjahafnar.

 

Grétar Mar Jónsson, skipstjóri Sandgerði.

Ólafur Sigurðsson, skipstjóri Grindavík.


Ályktun frá stjórn Frjálslynda flokksins

Stjórn Frjálslynda flokksins harmar það að sjávarútvegsráðherra ætli einu sinni enn að fara eftir reikningsfiskifræði Hafrannsóknarstofnunnar varðandi hámarksafla á komandi fisveiðiári.    

Stjórn Frjálslynda flokksins telur að í því hörmulega ástandi sem nú ríkir í þjófélaginu sem kemur fram í  miklu og langvarandi atvinnuleysi og niðurskurði á öllum sviðum velferðarkerfisins að það sé ekki forsvaranlegt að fara í blindni eftir ráðgjöf sem aldrei hefur gengið upp og gengur í berhögg við viðtekna vistfræði.  

Stjórn Frjálslynda flokksins krefst þess að bætt verði við veiðiheimildir þannig að þorskaflinn verði aukinn um a.m.k. 100 þúsund tonn og sömuleiðis blasir við að rétt sé að auka sókn í aðrar fisktegundir. Auknar veiðar leiða til aukinna tekna og draga strax úr atvinnuleysi. Stjórn

Frjálslynda flokksins undrast og lýsir yfir miklum vonbrigðum með að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar virðist ekki ætla að breyta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi í haust eins og gefin voru hátíðleg fyrirheit um í aðdraganda síðustu kosninga og fest var með skýrum hætti í stjórnarsáttmálann.
 

Stjórn Frjálslynda flokksins fagnar ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að gefa veiðar frjálsar  á úthafsrækju enda hefur það verið baráttumál Frjálslynda flokksins frá stofnun hans að fækka kvótabundnum tegundum.            

Það er krafa stjórnar Frjálslynda flokksins að ríkisstjórn Íslands virði mannréttindi íslenskra sjómanna sem ekki eru virt í dag samkvæmt áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2007.

Enn um fyrningu.

Björn Valur sem er nú orðin aðal klappstýra LÍÚ heldur því fram að stærsti hluti þeirra fyrirtækja sem eiga kvóta fari á hausinn ef staðið verður við fyrningu sem lofað var að yrði farin í stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar.

Dæmið lítur þannig út að fyrirtæki sem á 10.000 tonn yrði fyrir 5% skerðingu. Þetta þýðir að það gæti veitt 9.500 tonn af eigin kvóta áfram. Þessu til viðbótar gæti þetta fyrirtæki eins og aðrir boðið í eða fengið úthlutað af þeim potti sem verður til við fyrninguna. Þetta fyrirtæki ætti því eftir fyrningu meiri möguleika til að auka veiðar miðað við núverandi aðstæður. Forsenda þessa er þó að fyrirtækið sé vel rekið.  

Að halda því fram að stærstur hluti sjávarútvegsfyrirtækja í landinu þoli ekki 5% fyrningu er það sama og að segja að þau séu það illa rekin og að þau þoli engar sveiflur í veiðum.

Maður spyr hvað myndi gerast ef Hafró legði til að skerða núverandi kvóta um meira en 5% sem yrði þá gert í nafni þess að verið væri að vernda fiskistofnana gegn ofveiði.

Tekjur útgerðarfyrirtækja hafa aukist um helming eftir fall krónunnar. Ef það gerir þeim ekki kleift að leigja til sín kvóta í samkeppni við aðra sem nú eru leiguliðar þeirra þá er spurning hvort þeim er viðbjargandi. Það er því ekki hægt að kenna bankahruninu um slæma stöðu þeirra.

Það er ekki forsvaranlegt að íslenskur almenningur bjargi fyrirtækjum frá þroti sem hafa verið illa rekin þar sem arðurinn hefur verið notaður í óskyldan rekstur eins og dæmin sýna.

Það er rétt að mynna á það að þegar Færeyingar lentu í kreppu árið 1990 voru þeir neyddir af Dönskum bönkum til að taka upp sviðað fiskveiðistjórnunar kerfi eða aflamarkskerfi eins og er hér á landi. Eftir eitt og hálft ár áttuðu Færeyingar sig á því að brottkast og brask var ekki leiðin út úr kreppunni og því tóku þeir upp dagakerfi við stjórn fiskveiða.

Það þarf að tryggja öllum sama rétt til að nýta auðlindir landsins.

Það er komin tími til að mannréttindi íslenskra sjómanna verð virt.

Það verður að hafa heildarhagsmuni allra að leiðarljósi en ekki sérhagsmuni fárra.

Nauðsynlegt er að aðskilja veiðar og vinnslu og setja allan afla á fiskmarkað.

Í tilefni af 1. maí baráttudegi verkalýðsins.

Kvótahafar hafa í gegnum tíðina komist upp með það að leigja frá sér veiðiheimildir til þeirra sem hafa ekki heimildir. Með því hefur orðið til leiguliðakerfi í sjávarútveg sem ég ásamt fleirum hafa barist gegn.

Þegar núverandi sjávarvegsráðherra ákvað að gera breytingar á skötuselsveðum með þeim hætti að leigja beint frá ríkinu heimildir þá vakti það von hjá mörgum sem töldu að nú yrði eitthvað gert til að brjóta upp arfavitlaust kerfi. Menn sáu möguleika á að gera út án þess að vera háðir því að leigja gjafa kvóta frá útgerðarmönnum.  

Það hefur mikið gegnið á við að koma lögum um skötuselsveiðar í gegnum þingið. Grátkór sægreifanna hélt því fram að verið væri að gera aðför að þeim og taka af þeim eitthvað sem þeir þó áttu aldrei.

Nú eftir mikla baráttu er búið að úthluta skötuselskvóta og viti menn allt sægreifastóðið sækir um kvóta. Þeir sem hafa verið að leigja frá sér kvóta fyrir 330 kr. kílóið fá nú eins og þeir sem engan kvóta eiga að leigja úr þessum potti á 120 kr. kílóið. 
 

Það er hægt að færa rök fyrir því að nauðsynlegt sé að gæta jafnræðist í þessu sem og örðu. En þá verður að vera jafnræði á öllum sviðum í kvótakerfinu. 

Það vekur furða að eftir öll þau læti sem verið hafa í kringum þessar breytingar á kerfinu varðandi skötusel. makríl og strandveiðar að það er aðeins verið að tala um 2% af heildar úthlutun veiðiheimilda sem eru ca. 400 þúsund þorskígildi. Af þessum 2% munu sægreifarnir nýta 60-70% en  nýliðar, kvótalitlir og kvótalausir munu koma til með að nýta 30% af þessum 2%.  

Það má einnig geta þess að sægreifarnir fengu allan makríl kvótann til sín án þess að borga krónu fyrir og engin annar kemur til með að geta nýtt þau fáu þúsund tonn sem sett voru til hliðar fyrir kvótalausa eða þá sem ekki höfðu svokallaða veiðireynslu. Ástæðan er sú að til að geta stundað makrílveiðar þarf að vera til staðar meðafli í síld.  

Þetta er brandari. Það er búið að gefa fólki vonir um breytingar með skötusel strandveiðum og makríl.  En breytingarnar eru ekki að skila neinu. Öll loforðin hafa ýtt undir væntingar um að menn gætu aflað tekna fyrir sig og sína .Það verður ekki raunin með þessu fyrirkomulagi. Það er hægt að breyta þessu með breytingum á reglugerðum. Til dæmis að banna þeim sem hafa leigt frá sér kvóta að leigja til sín kvóta og ég mælist til að svo verði gert.

Fyrir ykkur sem hafið áhuga á að skoða úthlutina er það hægt hér   .

Ég sendi ykkur öllum baráttukveðjur.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband