Brotin loforð

Í stjórnarsáttmálanum er sagt að fyrna eigi núverandi veiðiheimildir en ekkert bólar á því og nú er Jón Bjarnason að bakka út úr fyrningarleiðinni.

 

Það er nógu slæmt að það var ekki byrjað 1. september 2009 að fyrna og því frestað um eitt ár heldur er einnig nú verið að boða frekari seinkun á fyrningarleiðinni eða afnám hennar.

 

Það er skelfilegt til þess að vita að ekki á að standa við stjórnarsáttmálann þar sem fyrningarleiðin var boðuð. Það átti að taka á spilltasta kerfi sem til er í landinu. Kerfi sem átti þátt í því efnahagshruni sem við erum nú að glíma við.

 

Núverandi kerfi er brot á mannréttindum fólksins í landinu og við því hefur ekki verið brugðist. Það er til skammar.

 

Þetta gerir hann þrátt fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason ásamt Ögmundi Jónassyni, Guðjóni Arnari Kristjánssyni og undirrituðum fluttu þingsályktunartillögu um að það ætti að virða mannréttindi á íslenskum sjómönnum.

 

Jón Bjarnason hefur svikið íslenska sjómenn með því að borga ekki skaðabætur til þeirra sjómanna sem Mannréttinda nefnd Sameinuðu þjóðanna taldi að ættu að fá bætur vegna mannréttindabrots  sem fiskveiðistjórnunarkerfið leiddi til.

 

Jón felur sig nú á bak við nefndina sem á að endurskoða núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Þessi nefnd er þannig skipuð að í henni eru tveir fulltrúar útvegsmanna, Svanfríður Jónasdóttir sem er tengd inn í kvótafjölskyldu, formaður Landsambands smábátaeigenda en í nefndinni er engin fulltrúi almennings og engin fulltrúi sjómanna með lítinn eða engan kvóta.

 

Jón Bjarnason virðist þegar hafa gefist upp fyrir L.Í.Ú. klíkunni. Jón Bjarnason leyfir auðvaldssinnum og núverandi kvótaeigendum að halda áfram braskinu þrátt fyrir að flestir þeirra séu nú gjaldþrota. Þeir eiga að fá að reka fyrirtækin sín áfram og halda sjávarútveginum í greipum skulda og yfirveðsetningar.  Þeir fá að halda áfram að stela út úr útvegs fyrirtækjunum peningum og eignum, með blessun ríkisbankanna (og nýju bankanna)

 

Jón hefur brugðist alþýðu þessa lands og fólkinu sem kaus hann og trúði því að hann vildi gera breytingar á óréttlátasta fiskveiðistjórnunarkerfi sem sögur fara af.

 

Það þarf dug, þor og kjark til að berjast fyrir réttlæti og það hefur Jón Bjarnason bersýnilega ekki eða hvað? Hann hefur fengið ráðherrastól á fölskum forsendum. Hann lofaði en sveik. Guð fyrirgefi honum.

 

Baráttunni um afnám kvótakerfisins er ekki lokið og nú verða allir þeir sem vilja þetta kerfi í burtu að snúa bökum saman hvar sem þeir standa í pólitík. Þetta mál varðar hagsmuni allrar þjóðarinnar og því verður að breyta.

 

Nýtt ísland þarf að byggja á jöfnuði, jafnrétti og jafnræði þegnanna og afnám fiskveiðistjórnunarkerfisins er forsenda þess.

 

Grétar Mar Jónsson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Kjósendur máttu vita að það væri ekki hægt að treysta Vg undir forystu Steingríms J en hann og Jóhanna Sigurðardóttir stóðu fyrir sölu veiðiheimilda á sínum tíma sem markaði upphaf hrunsins.

Sigurjón Þórðarson, 23.9.2009 kl. 21:44

2 Smámynd: Þórður Már Jónsson

Málflutningur Jóns í viðtalinu var átakanlegur. Hann hefur ekki þor eða dug til þess að taka á málinu. Hann er því miður kjarklaus með öllu. Mannréttindabrotin halda áfram. En það verður þingfest mál á næsta þriðjudag (29. september) á hendur honum (fyrir hönd íslenska ríkisins) þar sem fjallað verður um fleiri brot ríkisvaldsins á þegnum þessa lands varðandi fiskveiðistjórnunarkerfið. Stjórnarskrár og mannréttindabrot, enn eitt. En það er trú mín að þetta mál komi til með að leiða af sér raunverulegar breytingar.

Það er rétt sem þú segir, nú verðum við allir sem einn að snúa saman bökum, sama hvaðan við komum.

Þórður Már Jónsson, 23.9.2009 kl. 21:55

3 Smámynd: Bjarni Líndal Gestsson

Manni er verulega brugðið eftir að hafa hlustað á Jón Bjarnason. Maður óttast að LÍÚar séu búnir að ná tangarhaldi á honum. Ég sé að þið Þórður eruð sama sinnis og ég, varðandi það að standa saman. Var einmitt að blogga um þetta viðtal rétt áðan.

Bjarni Líndal Gestsson, 24.9.2009 kl. 00:10

4 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Strákar.

Ég mundi nú ekki alveg dæma Jón Bjarna úr leik eftir þetta viðtal í Kastljósinu.

Þið verðið að átta ykkur á því að LÍÚ eru raunveruleg glæpasamtök sem svífast einskins og ég fullyrði að það er raunveruleg hætta á að ákveðnir menn innan samtakanna séu reiðubúnir til að fremja voðaverk.

Pólitískir andstæðingar þessa glæpasamtaka eru því í verulegri hættu.

Ég hef persónulega orðið fyrir slíkum ofsóknum frá þessu liði að ég trúi þeim til alls.

Jón Bjarnason er varkár maður og hann veit vel að hann þarf að gæta tungu sinnar í fjölmiðlum.

Níels A. Ársælsson., 24.9.2009 kl. 08:24

5 Smámynd: Grétar Mar Jónsson

Við látum nú ekki L.Í.Ú klíkuna beygja okkur Nilli eða hvað?

Grétar Mar Jónsson, 24.9.2009 kl. 09:08

6 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Grétar, hvert er þitt mat á þessu nýja kerfi sem Jón Bjarnason kom á fót í vor, strandveiðarnar, þar sem allir sem eiga bát og búnað geta tekið þátt í?

Ég hef spurnir af því frá Vestfjörðum að menn hafi verið áhugasamir. Hvernig komu þessar veiðar út á þinni heimaslóð? 

Þorsteinn H. Gunnarsson, 24.9.2009 kl. 17:53

7 Smámynd: Grétar Mar Jónsson

Sæll Þorsteinn, það eru nokkrar færslur hér á blogginu mínu um strandveiðar þar sem fram koma skoðanir mínar á strandveiðikerfinu. Ég er mjög hlynntur því.

Kveðja, Grétar Mar.

Grétar Mar Jónsson, 24.9.2009 kl. 19:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband