3.10.2009 | 16:45
Við getum mildað höggið
Þessa daganna er verið að boða skattahækkanir, hækkanir á vörugjöldum og niðurskurð á velferðarkerfinu.
Foreldrar tíu þúsund barna eru atvinnulausir og það lítur út fyrir að atvinnuleysi eigi eftir að aukast enn frekar á næstu mánuðum.
Til að minnka það mikla högg sem hrun bankakerfisins hefur haft í för með sér þarf að auka þjóðartekjur.
Það er ekki hægt að bíða eftir því að eitthvað gerist í þeim málum. Við verðum hér og nú að nýta þær auðlindir sem við eigum til atvinnusköpunar og til að auka þjóðartekjur.
Þetta er hægt að gera með því að breyta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfinu strax. Nú er því þannig háttað að kvótahafar/eigendur hafa leyfi til að geyma 33% af óveiddum fiski á milli fiskveiðiára. Þetta er að sjálfsögðu algjört bull sérstaklega í því árferði sem er hér í dag.
Geymsluréttin á að afnema strax því á síðasta fiskveiðiári þýddi þetta að ekki voru veidd 25.000 tonn af þorski, 20.000 af ýsu, 20.000 tonn af ufsa, rækjukvótinn er ekki fullnýttur og ýmsar aðrar tegundir. Í tekjum má áætla að þetta séu um 20 -30 milljarðar. 400-500 störf til sjós tapast og annað eins í landi. Þjóðartekjur eru því minni en þær þyrftu að vera út af arfavitlausu fiskveiðistjórnunarkerfi.
Núna í þessu árferði ætti að bæta við veiðiheimildir í þorski um 100.000 tonn, 30.000 tonn í ýsu og 30.000 tonn í ufsa. Einnig á að taka skötusel út úr kvóta og láta veiða eins mikið og hægt er af honum. Rækjuveiðar á að gefa frjálsar.
Þetta myndi strax leiða til meiri tekna og minna atvinnuleysis. Skipin eru til og mannskapur með reynslu, þekkingu og vilja til að leggja sitt að mörkum við að koma þjóðfélaginu á réttan kjöl. Það sem þarf er kjarkur, dugur og þor til að breyta núverandi kerfi þannig að heildarhagsmunir þjóðarinnar séu hafðir að leiðarljósi en ekki sérhagsmunir fárra.
Látum ekki LÍÚ klíkuna og grátkór þeirra verða þess valdandi að eina leiðin sem fær sé til að borga fyrir óráðsíu útrásarvíkinganna og þeirra fylgismanna sé að skattpína þegna landsins til helvítis.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:55 | Facebook
Athugasemdir
Komdu blessaður Grétar....er bara að velta því fyrir mér hvar hægt sé að finna kjark, dug og þor innan núverandi ríkisstjórnar ???
Sjáum t.d. hvað setur þ. 1 Sept. '10, líklega alveg sama hvaða sjórn verður við völd þegar þar að kemur, hún kemur til með að lúffa fyrir LÍÚ og kvótagreifunum.
Það verður ekkert úr þessari fyrningarleið og yfir höfuð ekki gerðar neinar breytingar á núverandi sjávarútvegsstefnu....og EF eitthvað verður að gert þá verða það einhverjir smáplástrar. Þetta er allavega mín trú
Anna Grétarsdóttir (IP-tala skráð) 3.10.2009 kl. 17:13
Síðasta málsgreinin þín er mögnuð Grétar.
Finnur Bárðarson, 3.10.2009 kl. 17:24
Anna við missum ekki móðin við verðum að trúum því að réttlætið sigri að lokum og við verðum að trúa því og treysta að rískistjórnin lúffi ekki fyrir LÍÚ klíkunni.
Takk Finnur.
Grétar Mar Jónsson, 3.10.2009 kl. 18:26
Það þarf einhverjar róttækari aðgerðir en endalaus skrif og ræðuhöld, þar að auki hefur þjóðin ekki efni á að bíða endalaust eftir réttlætinu....réttlæti sem reyndar er að verða jafn sjaldgæft og geirfuglinn sálugi.
Anna Grétarsdóttir (IP-tala skráð) 3.10.2009 kl. 19:48
Góður pistill Grétar.
Nú er að vona að Hóla-Jón lesi bloggið.
Sigurður Þórðarson, 3.10.2009 kl. 22:29
Grétar . Er ekki Guðjón Arnar , formaðurinn þinn að vinna fyrir Hóla jón . Hvað er hann að gera í Sjávarútvegsráðuneytinu . Hann hlýtur að geta ráðlagt honum eitthvað að viti . Spurning hvort þú ættir ekki að hringja í hann .
Vigfús Davíðsson, 3.10.2009 kl. 23:44
Sæll Grétar og takk fyrir góðan pistil. Ef til vill hefur þú lesið grein Helga Laxdal í Mbl., þar sem hann komst að því að ekkert sérstakt væri því til fyrirstöðu að innkalla kvótann. Athyglisverð niðurstaða hjá manni sem hefur, eftir því sem ég best veit, fram til þessa verið stuðningsmaður kvótakerfisins. Nú er ég bara hræddur um að Jón áhyggjufulli (Hóla-Jón) hafi fundið nýja leið til að vera á móti, það er að vera á móti kvótainnköllun. Því er það mín tillaga að stofnað verði nýtt ráðuneyti, ráðuneyti vitamála, með aðsetur í Papey og að Jóni verðið falið að annast það ráðuneyti. Ekki væri verra að Svandís, Atli Ögmundur og Álfheiður yrðu höfð þar í geymslu líka og til að gæta vita á hinum ýmsustu byggingarstigum, bæði heilla og hálfra og allt þar á milli.
Ingimundur Bergmann, 4.10.2009 kl. 08:29
Ingimundur, Hóla-Jón eða hvaða sjávarútvegsráðherra sem er getur skipt um kerfi hvenær sem er. Þannig eru lögin.Sjávarútvegsráðherra sækir umboð sitt t
Sigurður Þórðarson, 4.10.2009 kl. 08:39
Framh (smá slys) sitt til forseta, forsætisráðherra og alþingis en þarf að öðru leyti ekki að spyrja kóng eða prest.
Sigurður Þórðarson, 4.10.2009 kl. 08:41
Sigurður Þórðarson, þetta er ekki alveg svona einfalt, því að er Alþingi sem setur lög um stjórn fiskveiða og þar sitja bæði (smá) kóngar og vegvísar (prestar). http://www.althingi.is/lagas/137/2006116.html
Ingimundur Bergmann, 4.10.2009 kl. 09:00
Það þarf dug, þor og kjark til að takast á við LÍÚ klíkuna. Vald ráðherra er mikið í þessu efni, hann getur ráðið hversu mikið magn er veitt í hverri tegund. Hvort það eru veidd 100.000 tonn eða 500.000 tonn á ári. Hann getur ákveðið hvaða tegundur er bundnar í kvóta á hverjum tíma. Hann þarf ekki að fara með það fyrir þingið, þetta er í lögum um stjórn fiskveiða. Ráðherra hefur samkvæmt þeim þetta vald.
Ingimundur það má fagna því að Helgi Laxdal hefur áttað sig á því að fiskveiðistjórnunarkerfið er ónýtt stjórntæki.
Grétar Mar Jónsson, 4.10.2009 kl. 09:24
Líst vel á sumt af þessum tillögum og held að svona málflutningur sé vænlegri til árangurs heldur en endalaust hjal um afnám kvótakerfisins.
Magnús (IP-tala skráð) 4.10.2009 kl. 09:49
Kvótakerfið gegnur ekki upp, geymslurétturinn er aðeins einn lítill hluti þess. Kvótakerfið brýtur mannréttindi á þegnum landsins samanber álit Mannréttindanefndar Sameinuðuþjóðanna, það á að afnema, en sem spor í þá átt að auka þjóðartekjur strax á að afnema geymsluréttinn núna.
Grétar Mar Jónsson, 4.10.2009 kl. 09:57
Niðurstaða Helga var í stuttu máli að þó kvótakerfið yrði lagt niður þá tæki fiskurinn væntanlega ekkert eftir því og héldi áfram að synda í hafinu umhverfis landið, fiskimennirnir með sína þekkingu yrðu líka áfram til svo og skipin. Hins vegar yrðu útgerðarmennirnir án fyrirtækja sinna ef kenning þeirra um gjaldþrot rættist, en fyrirtækin væru hvort eð er ekkert annað en skel sem væri í raun eign ríkisins í gegnum bankana. Vandinn af þessum sökum yrði enginn því nú um stundir væri yfirdrifið nóg framboð á fólki sem kynni að stjórna fyrirtækjum.
Nokkuð góð greining, ekki satt?
Ingimundur Bergmann, 4.10.2009 kl. 10:06
Þetta er rétt hjá Helga, Ingimundur og það er gott þegar menn sjá ljósið.
Grétar Mar Jónsson, 4.10.2009 kl. 10:09
Þetta er afbragðs gott yfirlit hjá þér, Grétar Mar. 33% af aflaheimildum geymt milli ára hjá hinum útvöldu. Þetta er reginhneyksli að geti átt sér stað. Svo sem eins og annað við þetta kvótakerfi LÍÚ . Nú er að henda þessum óskapnaði . Sennilega er það auðveldara en stjórnvöld hafa talið vera...
Sævar Helgason, 4.10.2009 kl. 11:50
Góður pistill sem sýnir vel galla kvótakerfisins. Jón Bjarnason skipaði nefnd sem á að skila tillögum um breytingar á kerfinu fyrir 1.nóvember, sem þjóðin geti sætt sig við.
Ég hef enga trú á því að hún geti skilað þeim árangri sem til er ætlast með alla hagsmunaaðila innanborðs. LÍÚ tilkynnti strax á fyrsta fundi að fyrningarleiðin kæmi ekki til greina. Auðvitað ætti að fara fljótari leið til innköllunar, en er einkver von um að nefndin skili tillögum um slíkt. NEI.
það er rétt hjá þér Grétar við verðum að taka þá áhættu að veiða meira, við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu. Áhætta segi ég, þó ég efist um að áhætta sé í því falin.
Bjarni Líndal Gestsson, 4.10.2009 kl. 12:23
Svo skulum við ekki gleyma því að það er líka við líði kvótakerfi í landbúnaði og að Jón landbúnaðar, hefur hug á að setja bændur í ný vistabönd með því að setja á hindranir varðandi sölu jarða! Það er alltaf að sannast betur og betur hve skaðlegt það er að hafa í stjórn fólk frá VG.
Ingimundur Bergmann, 4.10.2009 kl. 12:24
Þetta er alveg rétt hjá þér Grétar. Geymslurétturinn er út í hött við núverandi aðstæður en alveg í takt við annað í þessu kerfi. Að sjálfsögðu á að taka skötusel úr kvóta nú þegar sem og rækju og margar aðrar tegundir. Svo á að bæta vel í "strandveiðarnar" heimila frjálsa sókn með línu og færi. Hugsanlega má takmarka fjölda færavinda um borð sem og fjölda bjóða hjá línubátum. Það er svo komið í dag að fiskiskipaflotinn nær ekki einusinni útgefnum kvóta á hverju ári og því þarf ekki að óttast að hann sé of stór eða afkastamikill.
Það er ánægjulegt að heyra að Helgi Laxdal sé farinn að tala fyrir fyrningarleiðinni, ég átti seint von á því, þarf að sjá þessa grein hans.
En hvað varðar títtnefndan starfshóp um fyrningarleiðina þá hefur nú verið sagt að hlutverk hans sé að vinna að útfærslu kerfisins eftir að fyrningarleið verður tekin upp en ekki að ná samkomulagi um fyrningarleiðina. Ég tel að sá hópur sé í góðum höndum undir formennsku Guðbjarts H.
L.i.ú., 4.10.2009 kl. 14:26
Ég bara hætti mér varla hér inn, en Grétar ég er sammála þér með að auka kvótan og það er ekki hægt að bíða með hvorki eitt eða neitt.
Kveðja
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 5.10.2009 kl. 13:45
Hendum kerfinu og tökum upp nýtt. Núverandi kerfi getur aldrei virkað, vankantarnir á því verða aldrei sniðnir af. Það væri gríðarlega óábyrgt að fara ekki út í nauðsynlegar breytingar án tafar. Um það fjalla ég í færslu frá því í dag.
Þórður Már Jónsson, 5.10.2009 kl. 21:17
ég er hjartanlega sammála að það þurfi að auka fisveiðar undireins til að skapa vinnu og útflutningstekjur það er merkilegt að síðasta ár var þorskafli á íslandsmiðum sá minnsti síðan 1918 og rannsóknarblaðamönnum yfirsést þetta gjörsamlega það þarf að spyrja hafrófræðingana hvernig standi á þessu. líka stjórnmálamennina sem velta við hverjum steini til að finna tekjur en sjá bara niðurskurð og skattahækkanir þeir hjóta að vera blindir eða með dökk rafsuðugleraugu.ef alt væri eðlilegt gæti þorskaflinn verið 450000 tonn það munar um minna
kristján þórðarson (IP-tala skráð) 6.10.2009 kl. 01:26
ekki rétt
kristjá þórðarson (IP-tala skráð) 6.10.2009 kl. 01:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.