Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hryðjuverkalögin

Þrátt fyrir að ekki sé hægt að breyta því sem gerðist í fortíðinni er samt hægt að íhuga hvað betur hefði mátt fara. Það er nausynlegt að gera til að læra af mistökunum.

Það er mín skoðun og hefur verið frá því að Bretar settu á okkur hryðjuverkalög að við hefðum átt þá og þegar að slíta stjórnmálasambandi við þá. Ég lagði þetta til á Alþingi, strax eftir hrun. Ég vildi að við kölluðum okkar sendiherra heim og sendum sendiherra Breta úr landi. Ég taldi að við hefðum átt að nota sömu aðferð gegn Bretum í tenglum við hryðjuverkalögin eins og við gerðum í landhelgisstríðunum.

Það er skoðun mín af við hefðum átt að berjast fyrir rétti okkar án þess að hræðast það að við yrðum útskúfuð úr alþjóðasamfélaginu. Þegnar þessa lands eru mikilvægari en kokteilboð alþjóðasamfélagsins.

Hryðjuverkalögin bitnuðu ekki aðeins á Landsbankanum heldur höfðu þau einnig áhrif á efnahagslífið allt. Það nægir mér ekki að Bretar segi að hryðjuverkalögunum hafi verið beitt gegn bönkunum, þau bitnuð á þjóðinni allri.

Mörgum spurningum er enn ósvarað um það ferli sem olli því að hryðjuverkalögin voru sett á þjóðina. Það er nauðsynlegt að við fáum að vita hvað varð þess valdandi.

Var það ekki í verkahring Seðlabankans að fylgjast með gjaldeyrisviðskiptum? Af hverju var ekki gripið inn í það ferli þegar bankarnir og stjórnendur þeirra hófu að flytja peninga frá útibúum sínum í Bretlandi hingað til lands?  Ef það var ástæða þess að hryðjuverkalögin voru sett að það voru óeðlilegir flutningar á peningum frá Bretlandi til Íslands.

Það er mögum spurningum ósvarað um þetta mál sem verður af fara að fást svör við. Aðeins þannig getum við farið að horfa til framtíðar.

 

 


Við getum mildað höggið

Þessa daganna er verið að boða skattahækkanir, hækkanir á vörugjöldum og niðurskurð á velferðarkerfinu.

 

Foreldrar tíu þúsund barna eru atvinnulausir og það lítur út fyrir að atvinnuleysi eigi eftir að aukast enn frekar á næstu mánuðum.

 

Til að minnka það mikla högg sem hrun bankakerfisins hefur haft í för með sér þarf að auka þjóðartekjur.

 

Það er ekki hægt að bíða eftir því að eitthvað gerist í þeim málum. Við verðum hér og nú að nýta þær auðlindir sem við eigum til atvinnusköpunar og til að auka þjóðartekjur.

 

Þetta er hægt að gera með því að breyta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfinu strax. Nú er því þannig háttað að kvótahafar/eigendur hafa leyfi til að geyma 33% af óveiddum fiski á milli fiskveiðiára. Þetta er að sjálfsögðu algjört bull sérstaklega í því árferði sem er hér í dag.

 

Geymsluréttin á að afnema strax því á síðasta fiskveiðiári þýddi þetta að ekki voru veidd 25.000 tonn af þorski, 20.000 af ýsu, 20.000 tonn af ufsa, rækjukvótinn er ekki fullnýttur og ýmsar aðrar tegundir. Í tekjum má áætla að þetta séu um 20 -30 milljarðar. 400-500 störf til sjós tapast og annað eins í landi. Þjóðartekjur eru því minni en þær þyrftu að vera út af  arfavitlausu fiskveiðistjórnunarkerfi.  

 

Núna í þessu árferði ætti að bæta við veiðiheimildir í þorski um 100.000 tonn, 30.000 tonn í ýsu og 30.000 tonn í ufsa. Einnig á að taka skötusel út úr kvóta og láta veiða eins mikið og hægt er af honum. Rækjuveiðar á að gefa frjálsar.

 

Þetta myndi strax leiða til meiri tekna og minna atvinnuleysis.  Skipin eru til og mannskapur með reynslu, þekkingu og vilja til að leggja sitt að mörkum við að koma þjóðfélaginu á réttan kjöl. Það sem þarf er kjarkur, dugur og þor til að breyta núverandi kerfi þannig að heildarhagsmunir þjóðarinnar séu hafðir að leiðarljósi en ekki sérhagsmunir fárra.

 

Látum ekki LÍÚ klíkuna og grátkór þeirra verða þess valdandi að eina leiðin sem fær sé til að borga fyrir óráðsíu útrásarvíkinganna og þeirra fylgismanna sé að skattpína þegna landsins til helvítis.

 

 


Ásmundur og ríkið

Í gær hófust málaferli í Héraðsdómi gegn Ásmundi Jóhannssyni og verður spennandi að fylgjast með hvernig tekið verður á því máli.

Ásmundur fór á sjó án þess að hafa veiðiheimild til að ögra núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.

Verjandi Ásmundar mun eflaust nota plagg frá Mannréttinda nefnd Sameinuðu þjóðanna máli Ásmundar til stuðnings.

Nefndin hefur þegar gefið það út að íslenska ríkið eigi að borga tveim sjómönnum frá Tálknafirði skaðabætur vegna þeirra mannréttindabrota sem kvótakerfið leiðir til.


Varðhundar sægreifanna funda

Á bb.is er í dag fréttatilkynning frá sambandi ungra sjálfstæðismanna sem boða til fundar um sjávarútvegsmál í Edinborgarhúsinu á Ísafirði 25. september 2009.

 

Það sem vekur furðu er að framsögumenn á þessum fundi eru aðal varðhundar núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis. Menn sem búsetu sinnar vegna hafa horft á byggðirnar lagðar í rúst vegna núverandi kerfis. Þeir ætla samt að reyna enn og aftur að sannfæra sjálfan sig og nú unga sjálfstæðimenn um að þetta sé besta kerfi sem fundið hefur verið upp.

 

Kerfið hefur ekki bara lagt sjávarbyggðir á vestfjörðum í rúst heldur hefur það einnig rústað efnahagskerfi landsins.  

 

Almenningur á vestfjörðum hefur horft á eftir sægreifunum yfirgefa byggðirnar í rjúkandi rúst. Þeir hafa selt þann kvóta sem þeir fengu vegna dugnaðar þess fólks sem vann fyrir þá, til sjós og lands. Sumir þeirra hafa friðað samvisku sína með því að gefa kvótalausum byggðarlögum einn og einn gamlan snjósleða eða tekið 1.000.000 upp úr töskunni til að sýna samfélagslega ábyrgð eða friða slæma samvisku.

 

Halldór Halldórs ætti að vita manna best hvaða áhrif fiskveiðistjórnunarkerfið hefur haft fyrir fjárhagsstöðu Ísafjarðarbæjar eða ætlar hann einn og óstuddur að taka á sig slæma stöðu bæjarfélagsins.

 

Einari Guðfinnssyni ætti að nægja að fá sér bryggjurúnt í sinni heimabyggð til að sjá afleiðingar núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis og Teitur Björn Einarsson ætti að gera hið sama.

 

Þessu kerfi fylgja mannréttindabrot, vilja menn virkilega vera mannréttindaníðingar áfram.

Brotin loforð

Í stjórnarsáttmálanum er sagt að fyrna eigi núverandi veiðiheimildir en ekkert bólar á því og nú er Jón Bjarnason að bakka út úr fyrningarleiðinni.

 

Það er nógu slæmt að það var ekki byrjað 1. september 2009 að fyrna og því frestað um eitt ár heldur er einnig nú verið að boða frekari seinkun á fyrningarleiðinni eða afnám hennar.

 

Það er skelfilegt til þess að vita að ekki á að standa við stjórnarsáttmálann þar sem fyrningarleiðin var boðuð. Það átti að taka á spilltasta kerfi sem til er í landinu. Kerfi sem átti þátt í því efnahagshruni sem við erum nú að glíma við.

 

Núverandi kerfi er brot á mannréttindum fólksins í landinu og við því hefur ekki verið brugðist. Það er til skammar.

 

Þetta gerir hann þrátt fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason ásamt Ögmundi Jónassyni, Guðjóni Arnari Kristjánssyni og undirrituðum fluttu þingsályktunartillögu um að það ætti að virða mannréttindi á íslenskum sjómönnum.

 

Jón Bjarnason hefur svikið íslenska sjómenn með því að borga ekki skaðabætur til þeirra sjómanna sem Mannréttinda nefnd Sameinuðu þjóðanna taldi að ættu að fá bætur vegna mannréttindabrots  sem fiskveiðistjórnunarkerfið leiddi til.

 

Jón felur sig nú á bak við nefndina sem á að endurskoða núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Þessi nefnd er þannig skipuð að í henni eru tveir fulltrúar útvegsmanna, Svanfríður Jónasdóttir sem er tengd inn í kvótafjölskyldu, formaður Landsambands smábátaeigenda en í nefndinni er engin fulltrúi almennings og engin fulltrúi sjómanna með lítinn eða engan kvóta.

 

Jón Bjarnason virðist þegar hafa gefist upp fyrir L.Í.Ú. klíkunni. Jón Bjarnason leyfir auðvaldssinnum og núverandi kvótaeigendum að halda áfram braskinu þrátt fyrir að flestir þeirra séu nú gjaldþrota. Þeir eiga að fá að reka fyrirtækin sín áfram og halda sjávarútveginum í greipum skulda og yfirveðsetningar.  Þeir fá að halda áfram að stela út úr útvegs fyrirtækjunum peningum og eignum, með blessun ríkisbankanna (og nýju bankanna)

 

Jón hefur brugðist alþýðu þessa lands og fólkinu sem kaus hann og trúði því að hann vildi gera breytingar á óréttlátasta fiskveiðistjórnunarkerfi sem sögur fara af.

 

Það þarf dug, þor og kjark til að berjast fyrir réttlæti og það hefur Jón Bjarnason bersýnilega ekki eða hvað? Hann hefur fengið ráðherrastól á fölskum forsendum. Hann lofaði en sveik. Guð fyrirgefi honum.

 

Baráttunni um afnám kvótakerfisins er ekki lokið og nú verða allir þeir sem vilja þetta kerfi í burtu að snúa bökum saman hvar sem þeir standa í pólitík. Þetta mál varðar hagsmuni allrar þjóðarinnar og því verður að breyta.

 

Nýtt ísland þarf að byggja á jöfnuði, jafnrétti og jafnræði þegnanna og afnám fiskveiðistjórnunarkerfisins er forsenda þess.

 

Grétar Mar Jónsson

Nýtt Ísland

Forsenda þess að hægt sé að byggja upp nýtt Ísland sem byggir á jafnrétti, jafnræði og jöfnuði er að afnema núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.

Það er grunnur þeirrar spillingar sem við erum nú að súpa seiðið af.

Það má fagna gjörðum Jóns Jóseps Bjarnasonar sem ætlar að fara að kafa ofan í eigna- og hagsmunatengsl í íslenskum sjávarútvegi.

Í þessu tilliti er mönnum hollt að rifja upp það sem hefur gerst og gerðist þegar kvótinn var settur á árið1984, í tíð þáverandi sjávarútvegsráðherra Halldórs Ásgrímssonar, guðföður kvótakerfisins.

Nokkur dæmi um geðþóttaákvarðanir hans sem vörðuðu þann veg sem síðan hefur verið farinn, eru eftirfarandi:

Sjávarútvegsráðherra  Halldór Ásgrímsson bætti upp lélega humarvertíða á Höfn árið 1984 með þorskkvóta. Hann tók þá þorskkvóta frá öðrum sem veiddu þorsk, sem þá höfðu minna til skiptanna.

Þegar Erlingur togari úr Garðinum var seldur austur á Höfn fékk hann 500 tonn auka kvóta í þorski, í sóknarmarki. Landinu var þá skipt í norður og suðursvæði. Ráðherra færði línuna til að tryggja þetta. Togarar á norðursvæði voru  þá með 1750 tonn í þorski en togarar á suðursvæði með 1250 tonn.

Þegar bátar á Höfn hættu að veiða síld í reknet og fóru að veiða í nót  fengu þeir sama snurpu kvóta eins og þeir bátar sem höfðu veitt í nót. En þeir fengu einnig umframkvóta þannig að þeir fengu 1 tonn af þorski fyrir 3 tonn af síld í reynslukvóta.

Allt þetta gerðist í tengslum við sjávarútveg  á  Höfn í Hornafriði þar sem Halldór var einn eiganda Skinneyjar, ásamt fjölskyldu sinni.

Nýtt Ísland byggir á því að tekið verði á þeirri spillingu sem hér hefur ríkt þar sem sérhagsmunir fárra hafa verið teknir fram yfir hagsmuni almennings.

Fiskveiðistjórnunarkerfinu verður að breyta og tryggja öllum sama aðgang að auðlindum landsins.

Fólkið í landinu á að njóta góðs af þeim arði sem auðlindirnar skapa.

Veruleikafirrtur ráðherra

Árni Páll félagsmálaráðherra var á útvarpi Sögu í morgun og bullaði þar um sjávarútvegsmál.

Hann hélt því fram að aukning á fiskveiðum hér á landi myndi hafa áhrif á heimsmarkaðsverð á fiski.

Hér eru veidd 1% af því heildarmagni sem veitt er í heiminum af fiski og því er það firra að það hafi áhrif á heimsmarkaðsverð, að auka veiðar hér. 

Í Barentshafi eru veidd 1.000.000 tonn á þorski á ári og hefur það ekki haft áhrif á fiskverð. Okkar veiði er aðeins brot af þessu.

Í ár veiddum við 140.000 tonn af þorski en heimilt var að veiða 165.000 tonn samkvæmt ráðleggingum frá Hafró. Við erum því ekki einu sinni að veiða leyfilegt magn. Þetta er vegna þess að fjórflokkurinn samþykkti að auka geymslurétt milli fiskveiðiára úr 20% í 33%, síðastliðið haust. Geymsluréttinn á að afnema strax.

Það gengur ekki að reka þjóðarbúið aðeins með því að lækka laun, hækka skatta og draga úr framlögum til velferðarmála. Það þarf að auka þjóðartekjur. Það á að gera með því að auka fiskveiðar.

Það ætti að bæta við 100.000 tonn af þroski á núverandi fiskveiðiári og einnig á að auka heimildir í aðrar tegundir. Þetta gæti aukið gjaldreyristekur um ca. 100 milljarða á ári.

Að lokum legg ég til að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi verði lagt af.


Ekki rugga bátnum!

Nú stunda varðhundar sægreifanna það að telja sjálfum sér og öðrum trú um það að það verði að skapa stöðuleika í sjávarútvegi og því sé ástæðulaust og ekki rétt að breyta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.

 

Eða eins og Tryggi Herbertsson sagði í viðtali á Bylgjunni í gær telur hann ekki ástæðu til þess í dag eins og ástandið er í efnahagslíf þjóðarinnar að skapa óvissu í greininni.

 

Óvissan í greinin er í dag með þvílíkum eindæmum að ekki er hægt að bæta við hana og er það rétt hjá Tryggva. Óvissan er tilkomin vegna þess að menn sem hafa haft nýtingarrétt á auðlindinni hafa farið illa að ráðum sínum. Þeir hafa veðsett hana og  notað síðan lánin til þyrlukaupa, hlutabréfakaupa, gjaldeyriskaupa,byggja sumarbústaði, kaupa bílaumboð og jeppa.

 

Kvóti sá sem sægreifarnir hafa nýtingarréttin yfir er yfirveðsettur í bönkum landsins og því væri það rétt að við þær aðstæður að ríkið innkalli allar veiðiheimildir.

 

Þá væri hægt að búa til kerfi þar sem allir sætu við sama borð. Kvóti yrði leigður með þeim hætti að allir þeir sem áhuga hafa og getu til að stunda sjósókn og útgerð sætu við sama borð, þegar kemur að nýtingu sameiginlegrar auðlindar. Útleiga færi þannig fram að borgað yrði um leið og allur afli yrði seldur á fiskmarkaði.

 

Til að komast út úr kreppunni og til að skapa samstöðu meðal þjóðarinnar um að vinna saman til framtíðar að uppbyggingu þarf að taka á spillingu og sérhagsmunum fárra sem gengur gegn velferð almennings.

 

Það er firra að það skapi óvissu að breyta kerfinu. Eina óvissan sem það gæti skapað væri að sægreifar gætu ekki lengur leikið sér með auðlindina með þeim hætti sem þeir hafa hingað til gert. Þeir hafa farið illa með þá ábyrgð sem þeim var treyst fyrir. Því fylgir ábyrgð að hafa fjöregg þjóðarinnar til afnota.  

 

Þó svo að breytingar yrðu gerðar á kerfinu væri allt við það sama. Fiskurinn syndir um í sjónum. Menn fara á sjó í þeim bátum sem til eru í landinu. Fiskverkunarhúsin eru föst á grunninum. Kaupendur eru til staðar. Eina sem myndi breytast er að sægreifar hefðu ekki lengur þann möguleika að veðsetja landið og auðlindir þess til helvítis.

 

Kosturinn fyrir þjóðina og framtíð hennar er að ríkið hefði tekjur af leigu aflaheimilda sem kæmu strax í ríkissjóð.

Það sem olli efnahagshruninu var meðal annars núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi eins og Þorvaldur Gylfason hefur bent á. Það verður að breyta þessu kerfi til að mögulegt sé að skapa nýtt Ísland þar sem hagsmunir almennings er í fyrsta sæti.

 

Það er ástæðulaust að biðja menn um að rugga ekki bát sem þegar er sokkinn.


Hafró

Það er full ástæða til að senda fiskifræðinga Hafró í endurmenntun til Rússlands. Þeir hafa nú aukið kvóta í Barentshafi.

Þeir nota aðrar mælingar á stofnstærð og eru betur í tengslum við lífríkið í hafinu en íslenskir fiskifræðingar.

Kvóti hér á landi er ákvarðaður út frá togararalli sem gefur ranga mynd að stofnstærð. Það eru til aðrar leiðir til að meta stofnstærð, sem Rússar hafa notað.

Það er sorglegt að þjóðin þurfi að líða fyrir það að misvitrir starfsmenn hjá Hafró séu fastir í sínu togararalli, sem sjómenn hafa ekki trú á að hægt sé að nota til að meta stofnstærðir.

 


mbl.is Þegar á flótta undan ýsunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hænufetin hans Jóns

Gott að Jón telur að vel hafi tekist til við standveiðar í sumar.

En það er ekki nóg að hann reikni með að þær verði endurteknar næsta sumar.  

Bendi á greinar og blogg um standveiðar sem ég hef skrifað að undanförnu.


mbl.is Strandveiðarnar áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband